139. löggjafarþing — 130. fundur,  19. maí 2011.

brottfall laga um ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

768. mál
[18:38]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (U):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur og fleirum fyrir að leggja þetta mál fram. Ég tel eðlilegt að fella fyrstu Icesave-lögin úr gildi. En ég tek undir með þeim sem hafa talað hér, ég hefði talið eðlilegra að ríkisstjórnin sjálf hefði lagt fram frumvarp um að fella þau úr gildi.

Ekki er hægt að ræða þetta mál án þess að rifja aðeins upp sögu þess. Mér finnst ég ekki geta rætt þetta mál án þess að fara yfir Icesave 1, Icesave 2 og Icesave 3, þennan sorgarleiðangur allt frá síðustu kosningum, hvernig haldið hefur verið á málum. Ég held að mörg kurl eigi eftir að koma til grafar þar, og vægast sagt mjög mikið um gagnrýnisverð vinnubrögð.

Í fyrsta lagi er það nokkuð sérstakt, og ég vil segja það hér, að fyrsta hreina vinstri stjórnin, sem kennir sig við velferð í landinu, skuli á fyrstu mánuðum sínum, eftir að hún fær meirihlutastuðning þjóðarinnar í sögulegum kosningum, setja það sem aðalbaráttumál sitt að leggja milljarðakröfur á almenning. Er nema von að frá fyrsta degi hafi verið gríðarleg óánægja með það og gríðarlegur ágreiningur um það í flokki sem telur sig vera vinstri sinnaðan. Enda er það alveg sama hvar maður kemur og hittir systurflokka Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, hvort sem það er á Norðurlöndunum, Evrópu, Írlandi, það er alveg sama hvar maður kemur, menn eru allir jafnhissa á því að það skuli vera vinstri flokkurinn á Íslandi sem skuli hafa barist fyrir því, í samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, að taka á sig þessar Icesave-skuldir og jafnvel gert til þess þrjár tilraunir og látið þjóðina fella það tvisvar. Ákafinn er slíkur að berjast fyrir þessu máli og mörg orð hafa verið látin falla.

Ég vil byrja á því að rekja fyrsta Icesave-málið. Þegar fyrstu Icesave-samningarnir komu fram var því alls staðar haldið fram opinberlega að ekki væri verið að semja um Icesave. Síðan kemur þetta frumvarp fram og er lagt fram í ríkisstjórn án þess að í það minnsta allir ráðherrar fengju að sjá samningana. Í þingflokki Vinstri grænna lá ljóst fyrir að ekki var meiri hluti fyrir þessum samningum á Alþingi þegar þeir voru afgreiddir þar út. Það liggur algerlega skýrt fyrir og hefur legið fyrir. Og það er mjög alvarlegt í jafnstóru og viðamiklu máli, af því að það er Icesave 1 sem við erum að fella úr gildi, það eru þau lög, að ekki sé þingmeirihluti fyrir milliríkjasamningum áður en þeir eru lagðir í algjörri óvissu fyrir Alþingi Íslendinga.

Málið fór síðan til 1. umr. í fjárlaganefnd. Þar átti ég sæti. Þar lá það svo mánuðum skipti, enda lá ljóst fyrir að ekki væri þingmeirihluti fyrir málinu. Málið var fast í fjárlaganefnd, viðkvæmir milliríkjasamningar, ekki var þingmeirihluti fyrir því þá frekar en þegar það fór úr þingflokki Vinstri grænna. Það átti að keyra málið í gegn í krafti framkvæmdarvaldsins og löggjafarvaldið átti ekkert að hafa um það að segja. Málið kom til fjárlaganefndar, lá fast þar í heilt sumar. Og hvernig var það þar? Ég átti ófá samtöl við þá sem vildu umrætt frumvarp í gegn á sínum tíma þar sem lagt var mjög hart að mönnum að taka málið úr fjárlaganefnd þá um sumarið; og strax viku eftir að málið kom til fjárlaganefndar að taka það bara strax út. Ég sagði alltaf: Nei, það er ekki þingmeirihluti fyrir þessu máli. Það sofnar í fjárlaganefnd, og það verður með mínu atkvæði, fremur en það fari inn á Alþingi Íslendinga og við fellum Icesave-lögin þar. Það er ekki mikill bragur á því.

Það lá ljóst fyrir að þessir samningar voru þannig að engan veginn var hægt að samþykkja þá. Það hefði verið allt of hættulegt fyrir Ísland. Og öllum er það ljóst í dag. Fyrstu samningarnir sem komu voru gríðarlega hættulegir fyrir Ísland og það er ótrúlegt að þeir sem börðust fyrir þeim á sínum tíma skuli ekki enn viðurkenna að þeir hafi falið í sér mikla hættu fyrir Ísland.

Ákveðnir fyrirvarar voru samþykktir hér á Alþingi við þessa samninga. Þeir fyrirvarar voru mjög sanngjarnir. Þeir fólu það í sér að Ísland greiddi ákveðið hlutfall í ákveðinn árafjölda, ákveðið hlutfall af vexti landsframleiðslu eða vexti hagvaxtarins sjálfs, og að þeim tíma liðnum mundu menn setjast niður og fara yfir málið á nýjan leik, hvort eitthvað stæði út af — og ekki var verið að veita ríkisábyrgð fyrir allri þessari summu. Bretar og Hollendingar höfnuðu þessu ekki, þeir féllust ekki á það. En ég met það svo, eins og fleiri sem hafa talað í dag, að þeir hafi í reynd hafnað þessu.

Í framhaldinu kom nýtt samkomulag, Icesave 2. Það liggur ljóst fyrir að í Icesave 2 var reynt að finna út alla þá fyrirvara sem samþykktir voru í Icesave 1. Þeir voru að einhverju leyti þarna inni en búið að þynna þá út og taka úr þeim þann styrk sem þeir höfðu, hvort sem það voru lagalegir fyrirvarar eða efnahagslegir fyrirvarar.

Þetta kemur síðan inn á Alþingi og ég vil segja það hér að ég tel að það hafi verið mikil mistök hjá Alþingi Íslendinga, og þar á meðal þeim sem hér stendur, að hafa samþykkt þessa samninga á sínum tíma, þessa Icesave 2 samninga. En það liggur ljóst fyrir að það voru kannski enn meiri mistök hjá Alþingi sjálfu að samþykkja ekki þá kröfu að þessir samningar færu til þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég barðist mjög fyrir því og hvatti mjög til þess að Icesave 2 samningurinn færi til þjóðaratkvæðagreiðslu. Það liggur ljóst fyrir að þeir flokkar sem sitja í ríkisstjórn, Samfylkingin og Vinstri hreyfingin – grænt framboð, eru einmitt flokkar sem hafa barist mjög fyrir beinu lýðræði. Á þeim tíma lá ljóst fyrir að þessir samningar gátu vel farið í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þjóðinni var vel treystandi til að taka ákvörðun um þetta. Ég hygg að margir Íslendingar almennt úti í samfélaginu hafi jafnvel verið betur upplýstir en margur alþingismaðurinn um innihald þessara samninga á þessum tíma. Það var hins vegar ekki gert og mér fannst það mjög miður að það þyrfti að verða forseti Íslands sem vísaði þessu til þjóðarinnar. Ég hvatti hann reyndar til þess og þá var hafin undirskriftasöfnun þar sem tugir þúsunda Íslendinga hvöttu hann til þess. Og eftir atkvæðagreiðsluna í þinginu komst mikill kraftur í þá undirskriftasöfnun. Forseti Íslands vísaði þessu síðan til þjóðaratkvæðagreiðslu. En áður en það gerðist voru allir áróðursmeistarar landsins, þar á meðal sjálfur forsætisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra, búnir að fara til fundar við forsetann og hræða hann. Honum var sagt að ekki mætti vísa þessu til þjóðarinnar. Þá mundi lánshæfismatið falla, þá mundi Ísland verða Kúba norðursins. Ekki yrði mögulegt að kaupa hveiti í hillunum eftir helgina og þannig mætti lengi telja.

En hvað gerði forseti Íslands? Hann tók stöðu með þjóðinni. Hvað sýndi sig? Þjóðin hafði fullan styrk. Íslendingar sjálfir kynntu sér þetta mál, fram fór þjóðaratkvæðagreiðsla þar sem þetta var kolfellt. Þá hafði reyndar komið nýtt samningstilboð frá Bretum og Hollendingum sem sýnir hversu mikið glapræði var að koma fram með hina samningana í upphafi.

Eftir að þjóðin hafði fellt þennan samning var skipuð ný samninganefnd. Í fyrstu var Lee Buchheit fenginn hingað. Margir hafa fjallað um það hvað Lee Buchheit hafi sagt, að hann hafi sagt að það ætti að semja og annað því um líkt. Það er beinlínis rangt. Á fundum sem Lee Buchheit kom á í fjárlaganefnd sagði hann: Ef ég væri þið þá mundi ég tilkynna Bretum og Hollendingum að sem ábyrg stjórnvöld gætuð þið ekki samþykkt ríkisábyrgð á upphæð sem enginn viti hver sé. Við skulum sjá hvað kemur út úr eignasafni Landsbankans og að þeim tíma loknum erum við tilbúnir til að semja og við munum gefa út yfirlýsingu þess efnis. Þetta nákvæmlega sagði Lee Buchheit. En því er ekki að leyna að Lee Buchheit er klár samningamaður og hann var í framhaldinu fenginn af ríkisstjórn Íslands til að fara í þessa samninga og semja. En það er algerlega rangt að á fyrstu fundum sem hann kom á fyrir fjárlaganefnd hafi hann haldið því fram að við ættum að semja um þessa deilu. Hann sagði að við ættum að bíða, það væri óábyrgt að samþykkja þetta með þessum hætti. Hann er síðan fenginn til að ganga til samninga við Breta og Hollendinga og þá auðvitað gerir hann það og hefur sagt að hann hafi komið heim með þá samningsniðurstöðu sem hann teldi mögulegt að ná á þeim tímapunkti. En það er vegna þess að það er það verk sem hann var fenginn í á þeim tíma. En það liggur ljóst fyrir að það hefur verið rangt haft eftir honum, það sem kom fram í fjárlaganefnd.

Síðan koma þessir Icesave 3 samningar. Það liggur ljóst fyrir að þegar þeir koma inn í þingið fer af stað undirskriftasöfnun. Þegar þeir eru afgreiddir frá þinginu hefði maður óskað þess að þingmenn almennt hefðu horft til þess að allur sami hræðsluáróðurinn og hafður var uppi um Icesave 2 — lækkun lánshæfismats, allt mundi hrynja — var settur af stað fyrir Icesave 3. Þá hefði maður óskað þess að einhverjir í þessum sal hefðu séð að sér og áttað sig á því að hugsanlega væri ekki allt rétt sem sagt var í Icesave 2 eins og hafði sýnt sig. Því miður varð raunin ekki sú. Maður hefði líka óskað þess, þegar það lá ljóst fyrir að tugir þúsunda Íslendinga höfðu skorað á Alþingi að beina málinu í þjóðaratkvæðagreiðslu, að þingmenn hefðu þá kosið að beina þessu til þjóðarinnar. Því hvaða leik átti forsetinn annan? Það voru sömu rök að baki því að hann beindi Icesave 3 til þjóðaratkvæðagreiðslu eins og Icesave 2. Það var ákveðinn hluti þjóðarinnar sem vildi vísa þessu til þjóðarinnar og enn var gjá milli þings og þjóðar hvað það snerti. Og sannaðist ekki sú gjá í þjóðaratkvæðagreiðslunni sem haldin var þar sem mikill meiri hluti landsmanna hafnaði Icesave 3 lögunum?

Þetta er hrein sorgarsaga. Og ég hef vissar áhyggjur af því að í flokki eins og Samfylkingunni, sem ætlar sér að verða forustuflokkur í íslenskum stjórnmálum og representerar sig sem slíkan, skuli enginn vera tilbúinn til að skoða hvað fór úrskeiðis eða viðurkenna yfir höfuð að eitthvað hafi farið úrskeiðis. Þessu var hleypt í gegnum allar stofnanir flokksins. Þessu var hleypt í gegnum ríkisstjórn, þingflokk, Alþingi, nefndir og aftur í gegnum Alþingi, ítrekað, þjóðin hafnar þessu, setur rauða spjaldið á þessi mál en menn eru ekki tilbúnir til að horfast í augu við að mistök kunni að hafa verið gerð. Það finnst mér mikið áhyggjuefni, ekki fyrir Alþingi Íslendinga og ekki fyrir Samfylkinguna heldur fyrir Íslendinga og þjóðina, að menn séu ekki tilbúnir til að horfast í augu við það.

Ég vona svo sannarlega að í framhaldinu verið haldið á málinu á þann veg sem átti að gera frá fyrsta degi, að leita réttar okkar og beita til þess ýtrustu kröfu. En ég hef vissar áhyggjur af því að menn geti snúið við blaðinu núna í ljósi þess að menn eru ekki tilbúnir til að viðurkenna að neitt hafi verið rangt í þessu ferli; að jafnvel þótt menn gefi einhverjar yfirlýsingar út á við þá reynist það þeim mjög erfitt að snúa við blaðinu, þeim sem samþykktu þetta allt á sínum tíma og hafa allan tímann ranglega talið að þetta hefði þessu gríðarlegu áhrif, þeim sem hafa allan tímann barist fyrir jái þvert gegn þjóðarvilja.

Er það þá svo, frú forseti, að það skipti engu máli hver sannfæring manna í þessu er? Menn höfðu ítrekað sagt: Ég legg mig undir, við verðum að ná þessu máli í gegn, annars er allt fallið. En síðan fer málið ekki í gegn og menn halda þá áfram og fara að keyra þveröfuga línu við það sem þeir töldu að væri rétt. Og eru þeir þá enn þá að keyra þveröfuga línu miðað við það sem menn telja að sé rétt? Ég veit það ekki. Ég hef miklar áhyggjur af framhaldinu af þessu máli en ég vona svo sannarlega að haldið verði á því með hagsmuni Íslendinga að leiðarljósi. Ég styð frumvarpið heils hugar.