139. löggjafarþing — 131. fundur,  20. maí 2011.

störf þingsins.

[10:41]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Þetta er athyglisverð umræða en sorglegt er samt að heyra hvað hv. þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs sem hafa talað eru afar illa að sér um hvernig málin hafa gengið fyrir sig á þinginu og ekki síst innan ríkisstjórnarinnar. Ég held að hv. þingmenn Vinstri grænna ættu að ræða það sín á milli og við ráðherra ríkisstjórnarinnar og hugsanlega þá sem ákveða dagskrá þingsins. Svo ég upplýsi það þá hefur ekki mikið reynt á hvort Framsóknarflokkurinn eða aðrir í stjórnarandstöðu á þingi vilji fá mál á dagskrá sem tengjast sjávarútvegsmálum eða ekki. Aðrir hafa frekar deilt um það sín á milli. Ég held að stjórnarliðar ættu að setjast niður einu sinni og velta fyrir sér hvort þeir geti t.d. náð saman um að annað málið komi fram eða bæði. Ástæðan fyrir því að frumvörpin eru ekki rædd hér er vandræðagangur og sundurlyndi meðal stjórnarflokkanna. Það er ekki þannig að stjórnarandstaðan sé að þvælast fyrir.

Varðandi þær vangaveltur sem hv. þingmaður hafði uppi þá er örlítill samhljómur í þeim frumvörpum sem hafa komið fram og með ályktun flokksþings framsóknarmanna. Hins vegar eru útfærslurnar sem þar eru boðaðar á engan hátt nálægt því sem þar var ályktað. En að sjálfsögðu eru framsóknarmenn eins og aðrir tilbúnir til að ræða þessi mál og opna á að gera þurfi ákveðnar breytingar á sjávarútvegskerfinu. Það þýðir ekki að öll þvælan sem kemur frá ríkisstjórninni eigi að vera grunnur að því sem verður breytt. Það er bara þannig, hv. þingmenn.

Ég skora á þingmenn Vinstri grænna sem rætt hafa þessi mál nú þegar, þá ágætu þingmenn sem standa í dyrunum, að setjast niður með samstarfsflokknum í ríkisstjórn og spjalla um hvernig best sé og unnt sé að bera fram þessi mál og hvort það sé yfirleitt einhver (Forseti hringir.) ríkisstjórn í landinu til þess.