139. löggjafarþing — 131. fundur,  20. maí 2011.

staða íslenskrar tungu og íslensks táknmáls.

533. mál
[12:17]
Horfa

Frsm. menntmn. (Skúli Helgason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Pétri H. Blöndal kærlega fyrir sjónarmið hans og ábendingar. Ég er honum fyllilega sammála um þá hættu á einsleitni heimsmenningarinnar sem birtist hér í okkar litla landi eins og alls staðar annars staðar. Ég tel að veita þurfi kröftugt viðnám við því, sérstaklega með því að efla rannsóknir og þróun á tæknilausnum eins og þeirri sem Pétur hélt hér á í hendi sinni en ekki síður varðandi einmitt vandaða íslenska dagskrárgerð, vandaða þróun og framleiðslu á námsgögnum sem eru líkleg til að höfða til ungmenna á Íslandi. Það mætti nefna dæmi um það sem vel er gert í þessu sambandi. Mér koma í hug þættirnir um Næturvaktina á Stöð 2 sem hafa notið mikilla vinsælda í íslensku sjónvarpi. Það er dæmi um þætti sem hafa þau áhrif að þeir valda ákveðinni tískubylgju og nýsköpun í íslensku máli án þess að hafa í för með sér mikla innreið slangurs sem tekið er beint úr erlendum málum. Þetta er lítið dæmi sem sýnir okkur fram á hvað vönduð íslensk dagskrárgerð getur haft mikil áhrif ef rétt er að málum staðið.

Ég tek sömuleiðis undir að það er mikilvægt og skilningur nefndarinnar að táknmálið þarf að vera val hvers einstaklings hvort hann nýtir sér það eða ekki, enda er orðalagið með þeim hætti í frumvarpinu að það er skýrt að íslenska táknmálið er fyrsta mál þeirra sem þurfa að reiða sig á það til tjáningar og samskipta. Einstaklingarnir eru sannarlega mismunandi og verða að hafa val um það hvaða leiðir þeir velja sér til tjáningar og samskipta.