139. löggjafarþing — 131. fundur,  20. maí 2011.

staða íslenskrar tungu og íslensks táknmáls.

533. mál
[12:22]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég kem upp til að gera grein fyrir þeim fyrirvara sem ég hef á þessu máli. Ég tek heils hugar undir tilgang þessa frumvarps um að festa í lög stöðu íslenskrar tungu, mæla fyrir varðveislu hennar, þróun og nothæfni. Ég tek einnig undir það að íslensku táknmáli eigi að veita aukið vægi sem fyrsta tungumáli þess hluta þjóðarinnar sem reiðir sig á það til tjáningar og samskipta. Fyrirvari minn snýr hins vegar fyrst og fremst að þeim athugasemdum sem við fengum frá fjölmörgum umsagnaraðilum að það væri ekki ljóst hvernig ætti að framfylgja þessum markmiðum og tryggja fjármagn til að hrinda þessum ákvæðum í framkvæmd. Að mínu mati er það allt of oft einkenni á frumvörpum sem við erum að afgreiða frá Alþingi að við tökum ekki nægilegt tillit til stöðu hins stjórnsýslustigsins sem eru sveitarfélögin. Það eru sveitarfélögin sem fara með málefni leikskóla og grunnskóla þar sem við lærum fyrst formlega íslensku í gegnum nám. Ég hefði því talið að þurft hefði að eiga sér stað mun nánara samstarf við það stjórnsýslustig um gerð þessa frumvarps og að liggja hefði átt fyrir einhvers konar áætlun eða kostnaðargreining um hvernig ætlunin væri að hrinda þessum ákvæðum í framkvæmd. Eitt af því sem ég tel að ætti að taka upp þegar við leggjum fram frumvörp er að við metum ekki bara í raun áhrifin á ríkið heldur metum líka kostnaðaráhrifin á annað stjórnsýslustig.

Það kemur fram í greinargerðinni um íslenskt táknmál, og þetta er eitthvað sem ég tel mjög brýnt að verði reyndin, að þeir sem greinast heyrnarlausir, heyrnarskertir eða daufblindir eigi rétt á að læra táknmál og ekki bara þeir heldur líka nánustu aðstandendur þeirra og þá erum við að tala um maka, foreldra, systkini, móður- og/eða föðurforeldra. Þar erum við ekki að tala um aðgang að túlkaþjónustu heldur um kennslu á táknmáli fyrir þennan hóp af einstaklingum. Ég held að nú þegar málið fer aftur til nefndar milli 2. og 3. umr. væri það eitt af því sem við mundum kannski gera betur grein fyrir í framhaldsnefndaráliti hvernig við sæjum fyrir okkur að hægt væri að framkvæma þetta og fengjum að heyra frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga hvernig það sæi fyrir sér að hægt væri að innleiða þetta í leikskóla og grunnskóla.

Það sem ég vildi líka aðeins nefna, sem er samt mun minna mál, er nefndin, Íslensk málnefnd. Ég hafði töluverðar áhyggjur af því að hún væri of fjölmenn, og það kemur fram í nefndarálitinu, og hvort það kæmi niður á störfum hennar. Það er lögð er til ákveðin fækkun og ég tel að að ákveðnu marki sé komið þar til móts við þær áhyggjur sem ég hafði að Samband íslenskra sveitarfélaga fær líka aðkomu að Íslenskri málnefnd.

Ég vil líka beina athygli þingmanna í sal og þeirra sem eru að hlusta á frumvarp sem liggur fyrir Alþingi þar sem rætt er um að lækka gjaldtöku ríkisins og raunar hvetja til útgáfu á rafrænum bókum. Ég held að það sem kom fram í ræðu hv. þm. Skúla Helgasonar þegar hann talaði um mikilvægi þess að stuðla að öflugri íslenskri námsgagnagerð, sú nýja tækni sem er virkilega að ryðja sér til rúms núna, rafræn útgáfa á bókum, geti einmitt stutt mjög vel við markmið þessara laga. Við erum mjög lítið málsvæði, við erum fámenn þjóð og þess vegna ættum við að leita allra leiða til að geta gefið út bækur, efni á íslensku á sem ódýrastan máta. Mjög stór hluti kostnaðar við bókaútgáfu hefur m.a. verið prentkostnaðurinn og náttúrlega flutningskostnaðurinn líka sem hefur þá ákveðin umhverfisáhrif þegar bækur eru prentaðar erlendis í leit að lægra verði.

Þetta er gott mál, þetta er mikilvægt mál og ég tek heils hugar undir það og mun styðja það, en ég tel mjög mikilvægt að nefndin taki betur á kostnaðarþættinum en er gert í nefndarálitinu.