139. löggjafarþing — 131. fundur,  20. maí 2011.

staða íslenskrar tungu og íslensks táknmáls.

533. mál
[12:37]
Horfa

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að hafa mörg orð um frumvarpið sem er þó mikilvægt, frumvarp um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls. Hv. þm. Skúli Helgason, formaður menntamálanefndar, fór mjög vel yfir nefndarálitið og vinnu nefndarinnar og þær breytingartillögur sem hún leggur til.

Ég vil þakka hæstv. menntamálaráðherra, eins og fleiri hafa gert, fyrir þann metnað og kjark sem hún sýndi með framlagningu þessa frumvarps, metnað fyrir hönd íslenskrar tungu, metnað fyrir hönd þeirra sem þurfa að reiða sig á táknmál til að túlka og tala íslenska tungu. Ég tel að þessi rammalöggjöf, sem ég ítreka að er almenn rammalöggjöf, segi okkur hvert við viljum stefna, hvernig við viljum hafa stöðu íslenskrar tungu og táknmálsins og eins og nefndin bætti við punktaleturs fyrir þá sem þurfa á því að halda. Það er síðan verkefni menntamálaráðherra og menntamálanefndar að halda áfram að vinna með þessi markmið, koma á þeim sérlögum sem þarf að setja til að uppfylla þessi markmið. Með þeim sérlögum fer þá fram kostnaðarmat á hverjum þætti.

Að mínu mati er ekki hægt að setja heildstætt kostnaðarmat á eitthvað sem við höfum ekki náð samstöðu um, sérstaklega þá við sveitarfélögin, af því að það er ekki farið að vinna það. Við höfum ekki komist að samkomulagi um það hvernig við viljum koma þessum markmiðum í framkvæmd. Það verður ekki gert nema í góðri og mikilli samvinnu við sveitarfélögin, við skólasamfélagið, við grunnskólana, leikskólana, háskólana, við Ríkisútvarpið og fleiri sem munu þurfa að taka markmiðssetninguna til sín. Ég er sannfærð um að með þessari markmiðssetningu og þessari ætlun okkar munum við auka vitund okkar sjálfra og annarra, eins og t.d. Ríkisútvarpsins, um ákveðnar skyldur.

Ég vil sjá að Ríkisútvarpið stefni að því og komi því svo fyrir að hver einasti fréttatími verði túlkaður með táknmáli. Það er gert í nokkrum löndum og það er ósk mín að það verði hjá okkur líka þannig að við náum þessum markmiðum okkar. Það er þarf af leiðandi ekki hægt að leggja mat á kostnað útvarpsins, við þurfum að útfæra það frekar. Kostnaðarmatið kemur síðar. Ég tel þetta því ekki vera ábyrgðarleysi. Við erum ekki með þessari heildarlöggjöf að varpa ábyrgðinni eða kostnaðinum yfir á einhverja aðra. Við erum að móta stefnuna. Kostnaðurinn mun deilast á okkur með einum eða öðrum hætti og hjá því verður ekki komist. Mér finnst að við getum líka lagt kostnaðinn til hliðar í þessari umræðu, við erum fyrst og fremst að tala um réttindi, fyrst og fremst að tala um sjálfstæð mannréttindi sem við eigum að halda uppi.

Ég vil aðeins koma inn á orð hv. þm. Péturs H. Blöndal, sem nefndi stöðu íslenskrar tungu í því slangurmáli sem er að ryðja sér til rúms, ekki bara vegna þess að við erum með miklu fjölbreyttari hóp Íslendinga af ýmsum þjóðernum sem koma með menningu sína og tungu hingað til okkar heldur ekki síst í gegnum fjölmiðlana eða ljósvakamiðlana þar sem meginmálið fyrir utan íslensku er enskan sem er sífellt að verða ágengari í okkar tungu. Við þurfum að vera vakandi fyrir því að það er ekki sjálfgefið að við höldum tungumálinu, hvorki gagnvart enskunni sem áhrifavaldi gegnum alla ljósvaka né gagnvart fjölbreyttum hópi innflytjenda sem verða Íslendingar og vilja búa hér.

Þrátt fyrir allar tæknibyltingar og þrátt fyrir alla tækniþróun, sem við skulum fagna, sem eykur möguleika okkar sem höfum bæði sjón og heyrn og möguleika þeirra sem hafa hvorki sjón né heyrn til að hafa samskipti við aðra þá kemur sú tækni aldrei í stað þess, hjá þeim sem eru heyrnarlausir eða heyrnarskertir, að geta talað beint við annað fólk, horfst í augu við annan mann og talað við hann með táknmáli. Við tölumst ekki við í gegnum eitthvert tæki. Við tölumst við sem manneskjur og við þurfum á táknmálinu að halda. Við skulum fagna öllum tæknibyltingum en við skulum styrkja táknmálið því að þannig tala þeir saman sem þurfa á því að halda.