139. löggjafarþing — 131. fundur,  20. maí 2011.

staða íslenskrar tungu og íslensks táknmáls.

533. mál
[12:48]
Horfa

Jónína Rós Guðmundsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Í dag er gleðidagur því vonandi verður þetta frumvarp um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls sem við ræðum að lögum. Við getum alla vega glaðst yfir því að vera að ræða þetta vandaða og mikilvæga mál.

Í frumvarpinu er lagaleg staða íslenskrar tungu tryggð og ekki síður íslensks táknmáls. Íslenskt táknmál hefur nú lagalega stöðu í íslensku samfélagi.

Í frumvarpinu er viðurkennt að íslenska sé þjóðtunga okkar og hún skuli vera notuð á öllum sviðum þjóðlífsins og að allir sem búsettir eru hér eigi þess kost að læra og nota íslensku til almennrar þátttöku í íslensku þjóðfélagi. Þetta er háleitt markmið og þetta er háleit stefnuyfirlýsing.

Nokkuð hefur nokkuð verið til umræðu hvort við ættum að binda þetta ákvæði í stjórnarskrá Íslands. Eins og hv. formaður nefndarinnar kom inn á er það víða gert og við gerum ráð fyrir því að stjórnlagaráð sem nú er að störfum muni tjá sig um það mál. Ég verð að viðurkenna að gleði mín er kannski einna mest í dag yfir 3. gr. frumvarpsins þar sem viðurkennt er að íslenskt táknmál er fyrsta mál heyrnarlausra, heyrnarskerta og daufblindra, afkomenda þeirra og nánustu aðstandenda. Áratuga baráttu þeirra sem fyrir þessu hafa barist er nú lokið og það er gaman að sjá fulltrúa þeirra á pöllunum vegna þess að þegar maður hefur barist lengi er mjög eðlilegt að maður vilji fylgjast með allt til loka.

Mikilvægt er einnig að tekið er fram að sá sem þarf á þessu máli að halda fái tækifæri eins og aðrir til að læra það og nota.

Í meðförum nefndarinnar var ákveðið að bæta inn íslensku punktaletri sem fyrsta ritmáli þeirra sem þess þurfa. Ég held að mjög mikilvægt sé að þeir sem á því þurfa að halda fái tækifæri til að nýta það og réttarstaða þess sé tryggð. Um leið fögnum við því að ýmsar tækninýjungar hafa komið fram sem geta kannski í raun komið í staðinn fyrir punktaletrið.

Mér finnst mjög gott að frumvarpið er byggt á mjög vandaðri málstefnu sem var samþykkt á Alþingi í mars 2009 þannig að við erum ekki að vinna með óhugsað mál heldur verulega vel ígrundað. Það skiptir mjög miklu. Málið er hugsað til enda og byggir á vandaðri vinnu.

Við töluðum talsvert mikið í nefndinni um Íslenska málnefnd sem er fjölskipuð nefnd og á að vera ráðgefandi um íslenskt mál og vera ráðgefandi til stjórnvalda á fræðilegum grunni. Talsverð umræða var um það í nefndinni að notendur þyrftu að eiga þar fulltrúa vegna þess að ég tel mjög mikilvægt þegar við mótum stefnu á hvaða sviði sem er í íslensku samfélagi að fræðasamfélagið og notendurnir tali saman. Gefið er tækifæri til þess í frumvarpinu að notendur séu kallaðir til og mjög mikilvægt er að innflytjendur eiga nú fulltrúa í nefndinni.

Eins og fram hefur komið er þetta mjög mikilvæg stefnuyfirlýsing. Við eigum síðan að sjálfsögðu eftir að færa hana inn í ýmis sérlög og vel getur verið að þar verði tekist á um kostnaðarskiptingu. En stefnuyfirlýsingin liggur fyrir og um hana eru allir sammála. Það er mikilvægt að þingmenn allra flokka sameinuðust í nefndarálitinu og enginn pólitískur ágreiningur var um málið enda er það þess eðlis að það væri afar erfitt.

Mér finnst líka skipta mjög miklu máli að í lok nefndarálitsins er í raun lagt til að almennt sé talað mannamál á Íslandi, þ.e. við eigum að tala vandað, einfalt og skýrt mál. Ég held að við á hinu háa Alþingi sem semjum lög ættum kannski að taka það mjög til okkar vegna þess að máli skiptir að almenningur á Íslandi skilji það sem fram fer, hvar sem er á vettvangi ríkis og sveitarfélaga. Töluverð áhersla er sem sagt lögð á það.

Ég óska okkur öllum til hamingju með þetta frumvarp sem vonandi verður að lögum sem allra fyrst.