139. löggjafarþing — 134. fundur,  27. maí 2011.

svör við fyrirspurnum.

[10:33]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Það er mikið tilefni til að ræða einmitt þetta atriði sem hv. þm. Ásbjörn Óttarsson vakti athygli á. Það er liðið hálft ár frá því að hann lagði fyrirspurn fyrir hæstv. fjármálaráðherra til skriflegs svars sem lýtur að leigusamningum um húsnæði hjá ráðuneytum og undirstofnunum þeirra. Það er að verða hálft ár sem það tekur fjármálaráðuneytið að svara spurningum um þetta mál.

Ef við skoðum þetta frekar liggur fyrir að 88 fyrirspurnum er ósvarað á Alþingi núna þegar fáeinir dagar lifa eftir af þinghaldinu fyrir vorið. Níu skýrslur sem þingmenn hafa beðið um hafa ekki borist. Ég er einn þeirra sem báðu um skýrslu um tiltekið mál sem bíður og af þessum 88 fyrirspurnum sýnist mér um 60 skriflegar. Það er því ekki það að ekki sé tími til að ræða þessi mál, framkvæmdarvaldið svarar einfaldlega ekki fyrirspurnum þingmanna. Það er mjög ámælisvert.