139. löggjafarþing — 134. fundur,  27. maí 2011.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 102/2010 um breytingu á X. viðauka við EES-samninginn.

544. mál
[11:13]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er farinn að kunna dálítið vel þessa ræðu hæstv. utanríkisráðherra því að hana flytur hann yfirleitt alltaf þegar Evrópumálin ber á góma. Stutta útgáfan af ræðunni er svona: Við erum með EES og þess vegna ráðum við ekki neitt við neitt sem frá Evrópusambandinu kemur.

Þetta er ekki alveg svona einfalt. Í fyrsta lagi vitum við að við höfum ekki yfirtekið — sem betur fer — öll lög eða allar tilskipanir Evrópusambandsins. Í öðru lagi sátum við hæstv. utanríkisráðherra í mjög merkri nefnd undir forustu þáverandi hæstv. dómsmálaráðherra Björns Bjarnasonar og hún skilaði góðu áliti í mars 2007. Ein meginniðurstaða okkar í þeirri nefnd var sú að það væri hægt að auka aðkomuleiðir okkar að ákvarðanatöku Evrópusambandsins og að okkur bæri að reyna að nýta okkur þær. Það var það sem hæstv. ráðherra sagði síðan í síðari hluta ræðu sinnar, hann vakti athygli á því að við hefðum ýmsar aðkomuleiðir að þessu.

Ég er alveg sammála hæstv. ráðherra um að við eigum að reyna að nýta þær í auknum mæli. Það kostar einhverja peninga en það eru smáaurar miðað við þá milljarða sem verið er að leggja í aðildarumsóknarbeiðnina núna gagnvart Evrópusambandinu, og auðvitað enn þá minna í hlutfalli við þann kostnað sem við munum síðan árlega bera ef svo ólíklega og ólukkulega tekst til að við verðum aðilar að Evrópusambandinu.

Ég held að við þurfum fyrst og fremst að velta einu fyrir okkur núna í þessu sambandi, við þurfum að fara miklu krítískara yfir þær tilskipanir sem berast til okkar með það í huga hvort okkur beri yfir höfuð að gera þær að lögum eða aflétta hinum stjórnskipulega fyrirvara. Við tökum eftir því að það er aukið streymi af svona tilskipunum núna til Alþingis og þess vegna er fullt tilefni til þess af okkar hálfu að fara miklu nákvæmara ofan í þetta en við höfum nokkru sinni gert.

Ég er sem sagt ósammála hæstv. ráðherra um að við þurfum að gleypa allt blóðhrátt, eins og hæstv. ráðherra sagði hérna, sem kemur frá Evrópusambandinu. Við höfum val og við eigum að beita því og við eigum síðan fyrst og fremst (Forseti hringir.) að reyna að auka aðgengi okkar að ákvarðanatöku (Forseti hringir.) innan Evrópusambandsins eftir þeim leiðum sem EES-samningurinn hefur fært okkur.