139. löggjafarþing — 134. fundur,  27. maí 2011.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 102/2010 um breytingu á X. viðauka við EES-samninginn.

544. mál
[12:25]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir góða og efnismikla ræðu. Við erum sammála um nokkurn veginn allt nema um umsóknarferlið um aðild að Evrópusambandinu. Ég er þeirrar skoðunar að stjórnmálaöflin á Íslandi eigi að sameinast um að klára aðildarsamninginn þannig að þjóðin hafi raunverulegan valkost þegar hún tekur afstöðu til niðurstöðunnar.

Ég vil hins vegar taka undir flest af því sem hv. þingmaður sagði um EES-samninginn og framkvæmd hans. Það skiptir okkur miklu máli að hann sé virkur, öflugur og dínamískur. Hluti af því er, eins og við höfum rætt margoft fyrr í dag, að þingið ræki hlutverk sitt. Ég vil því spyrja hv. þingmann: Styður hann það að þingið efli þetta enn frekar? Hér innan dyra er um að ræða ákveðið ferli þegar tilskipun berst — er hann sammála því að við reynum að auka aðkomu okkar áður en tilskipanirnar verða til eins og Norðmenn hafa gert með nokkuð markvissum hætti?