139. löggjafarþing — 134. fundur,  27. maí 2011.

ríkisframlag til bankanna.

[13:42]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Af vef Seðlabankans:

„Seðlabankinn lánar lánastofnunum einungis til skamms tíma …“

„Lán Seðlabanka Íslands gegn veði við lánastofnanir eru nú til sjö daga í senn. Seðlabankinn lánar þá fé gegn veði í verðbréfum og gengur lánið til baka að sjö dögum liðnum.“

Þetta eru reglur Seðlabankans. Við erum að ræða langtímalán en ríkisstjórnin tók ákvörðun um að skera niður velferðarkerfið, reka heilbrigðisstarfsmenn, frysta persónufrádrátt, stöðva allar opinberar framkvæmdir, hækka skatta á nauðpínda Íslendinga, ganga með betlistaf á milli álfyrirtækjanna um fyrirframgreiðslu skatta — til hvers? Til að fjármagna banka kröfuhafanna, bankana sem nú ganga fram af krafti í að innheimta hverja krónu af stökkbreyttum skuldum heimila og fyrirtækja. 20% af lánum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og Norðurlandanna (Forseti hringir.) voru notuð til að fjármagna banka þrotabúanna þar sem allt flóir í peningum. Ef maður leggur við hlustir heyrir maður hlátrasköllin vestan af Wall Street (Forseti hringir.) þar sem vogunarsjóðirnir hlakka yfir dílnum sem þeir gerðu við fjármálaráðherra. (Forseti hringir.) Ef einhvern tímann var tilefni fyrir ríkisstjórn til að segja af sér vegna afglapa er það núna, hæstv. forsætisráðherra.