139. löggjafarþing — 134. fundur,  27. maí 2011.

framkoma stjórnvalda gagnvart félögum Falun Gong 2002.

[13:45]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Forseti. Skömmu fyrir opinbera heimsókn Jiangs Zemins, þáverandi forseta Kína, til Íslands í júní 2002 ákvað ríkisstjórn Íslands að banna öllum iðkendum Falun Gong hreyfingarinnar að koma til landsins. Var banninu framfylgt af lögregluembættunum í Reykjavík og Keflavík með aðstoð Icelandair og fjölmargra íslenskra sendiráða víða um heim. Meintar lagalegar forsendur bannsins voru að tryggja allsherjarreglu og öryggi þjóðarinnar þótt Falun Gong iðkendur séu ekki mjög hættulegir og hafi hvergi, svo að ég viti, sýnt ofbeldisfulla hegðun sem hópur.

Í ljós kom að íslensk stjórnvöld notuðu vafasaman nafnalista, sem Persónuvernd úrskurðaði síðar ólöglegan, til að hafa uppi á Falun Gong iðkendum. Sá listi var sendur ásamt fyrirskipun dómsmálaráðherra til Icelandair og sendiráða víða um heim með orðum rituðum af Birni Friðfinnssyni, ráðuneytisstjóra utanríkisráðuneytisins, þar sem segir að dómsmálaráðuneytið hafi veitt Icelandair hörð fyrirmæli um að neita þeim sem voru grunaðir um Falun Gong iðkun að koma til landsins á umræddum tíma og bar flugfélaginu að fylgja listanum sem þegar hafði verið sendur. Þess má geta að Falun Gong er ekki formlegur félagsskapur sem heldur utan um félagatal og því er ljóst að listinn var settur saman af einhverjum öðrum en þeim sjálfum.

Ýmsum sem neitað var að fara um borð í íslenskar vélar með tilvísun til listans brá því verulega því að fyrir lá að upplýsinganna gat einungis hafa verið aflað með persónunjósnum. Í framhaldinu var fjölda fólks neitað um að koma til landsins, sumir fengu ekki vegabréfsáritanir en áritanir annarra voru dregnar til baka. En það sem kannski var alvarlegast var að hópur 75 iðkenda var handtekinn og settur í varðhald í Njarðvíkurskóla en þeir höfðu neitað að snúa til baka frá landinu. Það er ljóst að íslensk stjórnvöld brutu á mannréttindum, mál- og tjáningarfrelsi og ferðafrelsi þessa fólks og bæði Persónuvernd og umboðsmaður Alþingis úrskurðuðu síðar (Forseti hringir.) að lög hefðu verið brotin á þessum gestum okkar.

Mig langar að spyrja okkar ágæta utanríkisráðherra, Össur Skarphéðinsson, hvort ekki sé tímabært að íslensk stjórnvöld biðjist afsökunar á framferði sínu gegn þessu fólki árið 2002.