139. löggjafarþing — 135. fundur,  30. maí 2011.

Íbúðalánasjóður.

[11:00]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég fagna sérstaklega þeim tóni sem kemur fram í ræðu hv. þm. Ólafar Nordal. Ég hef ekki heyrt þennan tón jafnskýran frá Sjálfstæðisflokknum fyrr, og það er kominn tími til. Við höfum nefnilega fengið ótal viðvaranir frá fulltrúum Sjálfstæðisflokksins í sambandi við það hvernig við ráðstöfum fjármunum einmitt varðandi Íbúðalánasjóð, fullt af spurningum þegar við vorum að ræða 22 milljarðana, fullt af spurningum þegar var verið að velta vöngum yfir því hvort við þyrftum að endurfjármagna sjóðinn með eiginfjárhlutfalli upp að 4% eða 4,5% með 40–50%. (Gripið fram í.)

Fyrst og fremst er verið að tryggja að sjóðurinn geti sýnt fram á að hann hafi greiðslugetu gagnvart þeim sem eru að lána peningana og það er það sem varðar eigið féð. Við höfum verið á allt öðrum markaði en bankarnir, þ.e. við lútum allt öðrum lögmálum og erum undir öðrum lögum en bankarnir. Það þýðir að við þurfum að fara í gegnum þingið og lútum þeirri stjórn sem þar er, ólíkt hinum bönkunum. Það þýðir ekki að við eigum ekki að taka á þessum málum og ég fagna því að við förum yfir það. Ef við viljum ráðstafa peningum með því að deila þeim þarna út en ekki í gegnum vaxtabótakerfið eins og við höfum verið að gera, þá er það eitthvað sem (Forseti hringir.) á að ræða hér og ákvarðast af þinginu.