139. löggjafarþing — 135. fundur,  30. maí 2011.

lengd þingfundar.

[11:21]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Það er hárrétt sem fram hefur komið, þau mál sem á að ræða hér í dag komu allt of seint fram og við höfum þurft að samþykkja þau með afbrigðum. Við í minni hlutanum höfum líka samþykkt að hefja hér þingfundi að morgni til, hálfellefu núna í morgun, sem annars hefðu átt að hefjast klukkan þrjú þannig að ég hvet hæstv. forseta í anda samstöðu og fjölskylduvæns vinnustaðar til að verða við því að við fundum frá hálfellefu fram að kvöldmat. Það er heillangur tími sem okkur gefst til að ræða mikilvæg mál og ég bendi síðan á að það hefur verið samþykkt að við hefjum störf hér alla morgna það sem eftir er þannig að við ættum að geta staðið að þeim mikilvægu málum sem við erum að ræða hérna, m.a. um breytingar á fiskveiðistjórninni og fleiri málum, fyrir opnum tjöldum að degi til. Ég held að það sé affarasælast og ég bið hæstv. forseta að taka tillit til þess að við erum að byrja fundi mun fyrr en venja er og það er (Forseti hringir.) ákveðin sáttarhönd af hálfu okkar í stjórnarandstöðunni.