139. löggjafarþing — 135. fundur,  30. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[15:42]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ástæða þess að ég hef áhuga á að ræða um veiðigjaldið og úthlutun til landshlutanna er sú að það er ljóst að sjávarútvegurinn hefur dregist saman í mannafla og mun halda áfram að gera það. Þetta er hátæknivæddur matvælaiðnaður en ekki bara veiðar eins og margur virðist halda þegar verið er að fjalla um þetta. Því er ákaflega mikilvægt að samhliða því að það verður augljóslega samdráttur og fækkun fólks þar sem atvinnugreinin er stunduð, þ.e. á landsbyggðinni, verði þar til önnur störf, önnur uppbygging. Það sem hefur kannski verið að umræðunni um sjávarútveg og þá ekki síst hina byggðatengdu þætti, og er kannski það sama og hrjáði landbúnaðinn lengi vel, er að það er ætlast til að þessar atvinnugreinar haldi uppi byggð í landinu í staðinn fyrir að það þyrftu að koma inn nýir peningar til að byggja upp aðra atvinnu. Þess vegna er áhugavert að velta því fyrir sér hvort það sé ekki einmitt sanngjarnt að sá hluti auðlindagjaldsins sem rynni til landshlutanna (Forseti hringir.) renni þá til uppbyggingar annarra starfa á því svæði.