139. löggjafarþing — 135. fundur,  30. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[17:10]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nú er það svo með strandveiðipottana, byggðapottana og alla þá potta sem boðaðir eru, að afli er tekinn frá núverandi útgerðum og færður yfir í þessa potta sem er svo úthlutað til einhverra annarra. Í dag eru 4.600 atvinnusjómenn á Íslandi og ljóst er að þegar fiskurinn er tekinn frá þeim útgerðum lækkar heildaraflaverðmæti á hvert skip út af hlutaskiptakerfinu og þá lækka laun þessara sjómanna. Hv. þingmaður telur það vera mikið þjóðþrifamál að lækka á þennan hátt laun 4.600 atvinnusjómanna við Ísland og færa yfir til hobbí-sjómanna, ef ég skil málið rétt.