139. löggjafarþing — 135. fundur,  30. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[19:22]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er mál sem þarf að skoða alveg sérstaklega, það hvernig við útdeilum auðlindagjaldi almennt séð. Ef þær hugmyndir sem hér eru lagðar fram eru brot á stjórnarskrá lýðveldisins þá getum við auðvitað ekki farið fram með það. Það er kannski eitt af því sem hæstv. ríkisstjórn hefði átt að kanna nánar verandi með þetta álit á frumvarpinu áður en það var lagt fram til að það væri þó alla vega skýrt og við gætum rætt þetta af einhverjum hreinleika. Nei, það er flumbrugangur á því eins og öðru hjá þessu fólki.

Við höfum ekki staðið nægilega þétt við bakið á landsbyggðinni. Sú byggðaþróun sem hefur orðið er ekki kvótakerfinu að kenna, hún er því að kenna — eða þakka getum við kannski sagt — að tækniþróunin er svo arðbær en þar liggur ástæðan fyrir því að dregið hefur úr atvinnuframboði á landsbyggðinni.

Það voru fróðlegar myndirnar sem voru sýndar frá árinu 1960 í Neskaupstað, þegar 350 sjómenn voru að landa 2.500 tonnum, frá árinu 1980 á Siglufirði, þegar 100 sjómenn voru að landa 2.500 tonnum, og svo aftur myndir af því þegar Beitir er að landa í dag í Neskaupstað, 10 sjómenn að landa 2.500 tonnum. Það er þetta sem við glímum við og Alþingi og ríkisstjórnir á hverjum tíma hafa ekki gætt þess að byggja upp öflugri atvinnutækifæri í öðrum og breiðari atvinnuvegum út um allt land. Þar liggur ábyrgð okkar og í því eigum við að snúa við. Og við höfum tækifæri til þess, virðulegi forseti, með því að fara af alvöru í nýtingu á náttúruauðlindum okkar og horfa fyrst og fremst til uppbyggingar á landsbyggðinni í þeim atvinnutækifærum sem skapast af því.

Við viljum standa þétt með byggð í landinu. Hvort sem við erum þingmenn á suðvesturhorninu eða úti á landi held ég að það sé sameiginlegt markmið okkar allra að vilja efla landið allt og byggð í landinu öllu.