139. löggjafarþing — 135. fundur,  30. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[21:18]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að ekki sé vanþörf á að menn bregðist við þeirri beiðni sem kom fram af hálfu stjórnarandstöðunnar um að haldinn verði opinn fundur í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd um þetta mál. Þegar hv. stjórnarliðar koma hér upp, sérstaklega samfylkingarmenn, og tala um samráðið um þetta frumvarp er einfaldlega svo að við áttum orðræðu við fulltrúa launafólks í íslenskum sjávarútvegi í dag, fulltrúa smábátasjómanna og fulltrúa útgerðarinnar sem sögðu að ekkert samráð hefði verið haft við þá þegar frumvarpið var smíðað. Þetta frumvarp og útfærsla þess er á allt öðrum nótum en var í sáttanefndinni svokölluðu.

Samfylkingin getur ekki borið það á borð fyrir okkur í stjórnarandstöðunni og þá aðila sem hvað best þekkja til í þessum málum að víðtækt samráð hafi átt sér stað. Það hefur ekki átt sér stað.