139. löggjafarþing — 135. fundur,  30. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[22:37]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það var mjög gott dæmi hjá hv. þingmanni að taka Flateyri vegna þess að það er skýrt dæmi en þess sjást dæmi um allt land sambærileg við það. Ég fékk þessar tölur frá Landssambandi smábátaeigenda að fiskveiðiárið 2005/2006 keyptu 127 bátar í krókaaflamarkskerfinu kvóta, 2006/2007 100 bátar og 2007/2008 62 bátar. Allt þetta fólk spilaði í góðri trú eftir þeim leikreglum sem Alþingi hafði sett, keypti sinn kvóta, tók til þess lán, fjárfesti, fékk á sig þessa miklu skerðingu 2007 og sat uppi með skuldirnar, hefur verið að bíða eftir að fá aukninguna. Nú er hún að koma, nú er hún í augsýn og þá ætlum við að taka þetta af þeim. Bæði samkvæmt því frumvarpi sem við erum að ræða núna gagnvart strandveiðunum, um að auka þær, og enn frekar í því frumvarpi sem bíður umfjöllunar þar sem taka á helminginn af aukningunni. Viðmiðið í því hefði þurft að fara yfir 200 þús. tonn. (Forseti hringir.) Þetta er ekkert réttlæti að skilja fólkið eftir með skuldirnar og taka af því þær aflaheimildir sem það keypti spilandi eftir þeim leikreglum sem Alþingi setti.