139. löggjafarþing — 136. fundur,  31. maí 2011.

opinber innkaup.

189. mál
[12:28]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það var nú hærra risið á íslenska heildsalanum hérna í den tíð en núna. Það má segja að heldur hressilega hafi (Gripið fram í.) hallað undan fæti. Hér áður fyrr var íslenski heildsalinn helsti stórgrósserinn í íslensku viðskiptalífi en það hefur breyst töluvert.

Ég tek undir það með hæstv. utanríkisráðherra að hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson á heiður skilinn fyrir tilraunir sínar til þess að draga úr útgjöldum hins opinbera. Ég tek undir orð hæstv. utanríkisráðherra í þeim efnum.

En þegar kemur að því að hæstv. utanríkisráðherra reynir að gera það tortryggilegt að ég vilji efla eftirlit í viðskiptum og telji nauðsynlegt að Samkeppniseftirlitið komi að málum í þeim efnum þá er ástæða fyrir því. Hún er sú, hæstv. utanríkisráðherra, að ríkið hefur verið að færa sig mjög verulega upp á skaftið í ýmsum atvinnugreinum og sú ríkisstjórn sem hæstv. utanríkisráðherra er einn forsvarsmanna fyrir hefur verið að auka ríkisafskipti á flestum eða öllum sviðum.

Það er við slíkar aðstæður sem við þurfum öflugt Samkeppniseftirlit til að reyna að koma í veg fyrir að ríkisstjórnin fái vilja sínum framgengt gagnvart einkaaðilum. Það eru í sjálfu sér áhyggjur sem hafa komið fram í tengslum við þetta mál að ríkið eða Landspítalinn kunni hugsanlega undir einhverjum kringumstæðum að fara í samkeppni við innlenda aðila, t.d. í lyfjadreifingu, sem kynni að hafa mjög alvarlegar afleiðingar fyrir þann iðnað og fyrir það starfsfólk, sem er yfirleitt mjög vel menntað, sem starfar á þeim markaði. Það er við þær aðstæður — og sporin hræða — sem ég læt þessi orð falla.