139. löggjafarþing — 138. fundur,  31. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[14:34]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir ágæta ræðu. Ég las ályktun frá flokksþingi framsóknarmanna um sjávarútvegsmálin. Í 4. lið stendur að lagt sé til að nýtingarsamningar verði gerðir til um það bil 20 ára á grunni aflahlutdeildar á hvern bát.

Stefna Framsóknar sem var samþykkt á flokksþinginu um daginn er í öllum aðalatriðum samhljóða frumvarpinu sem hér er komið fram. Hér er byggt á sáttaleiðinni. Eins og þingmaðurinn rakti ágætlega áðan var að sjálfsögðu ágreiningur í skýrslunni og nefndinni um útfærsluna en grunnurinn er nákvæmlega sá sami sem er nýtingarsamningur (Gripið fram í.) gerður til tiltekinna ára. Síðan getur okkur greint á um það ýmislegt. Margt orkar tvímælis, bæði í tillögum Framsóknar og í frumvarpinu, um pottana, um byggðapottana, um þá útfærslu alla. Hér er um að ræða endurúthlutun aflaheimilda í einu lagi með ákveðinni fyrningu inn í tiltekna potta. Það er sáttaleiðin sem var samþykkt í skýrslunni. Það er sú leið sem lögð er til hér og af Framsókn.

Því fagna ég mjög og spyr þingmanninn (Forseti hringir.) hvort þetta falli ekki algjörlega saman í öllum aðalatriðum.