139. löggjafarþing — 138. fundur,  31. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[18:16]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Veiðileyfagjald sem slíkt tel ég koma til greina. Segja má að allt frá því að auðlindanefndin svokallaða skilaði niðurstöðu sinni í kringum aldamótin hafi verið allgóð sátt um að einhvers konar veiðileyfagjald skyldi vera. Menn hafa deilt um fjárhæðir, prósentur og reikningsaðferðir. Ég held að ekkert sé heilagt í því og það megi endurskoða, bæði forsendurnar fyrir útreikningi veiðileyfagjalds og eins prósentur. Mér finnst hins vegar allt of bratt farið í breytinguna núna. Mér finnst 70% hækkun í einu skrefi hreint út sagt fráleit.

Varðandi spurninguna sem hv. þingmaður bar fram um að hluti veiðileyfagjaldsins sé eyrnamerktur sérstökum byggðarlögum eða svæðum þá verð ég að segja að ég hef efasemdir um það. Ef við göngum út frá því prinspippi, því grundvallarsjónarmiði að öll þjóðin og allir landsmenn eigi auðlindina, ekki bara þeir sem búa við ströndina heldur líka þeir sem búa á Hvolsvelli eða Egilsstöðum eða í Mosfellsbæ, ef þeir eru eigendur auðlindarinnar sem hluti af þjóðinni, sé ég ekki grundvöll fyrir þeirri mismunun sem frumvarpið felur í sér. Um þetta kunna að vera skiptar skoðanir en mér finnst augljóst að ef við á annað borð lítum á auðlindagjaldið sem afgjald eða afnotagjald til þjóðarinnar fyrir eign sem þjóðin á, eru engin rök fyrir svona bundinni ráðstöfun eins og þarna er gert ráð fyrir.