139. löggjafarþing — 138. fundur,  31. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[23:49]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Eins og ég sagði áðan er sumt í frumvarpinu sem rímar við þær áherslur sem Framsóknarflokkurinn mótaði á flokksþingi sínu og annað ekki, en ég er verulega ósáttur við margar útfærslur í frumvarpinu.

Hins vegar mun það bíða nefndarinnar að fara ítarlega yfir málið og fá álit hagsmunaaðila og þeirra sem starfa og vinna við þessa atvinnugrein. Það er því heilmikil vinna fram undan á þeim vettvangi.

En af umræðunni má dæma, rétt eins og hæstv. ráðherra hefur nefnt, að stjórnarliðar viðurkenna að margir vankantar eru á málinu og margir fyrirvarar sem einstakir stjórnarliðar setja við það frumvarp sem við ræðum.

Við skulum líka hafa í huga áður en við förum inn í þessa vinnu að hér er um gríðarlega stórt hagsmunamál að ræða og eðli málsins samkvæmt verða væntanlega allir, ef við ætlum að reyna að ná einhverri sátt, að gefa eitthvað eftir að af sínum (Forseti hringir.) ýtrustu kröfum þegar kemur að stefnumörkun í þessum málaflokki.