139. löggjafarþing — 139. fundur,  1. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[15:32]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Forseti. Ég bið hv. þingmann að rúlla yfir útskriftina af ræðunni til að athuga hvort hann hafi notað orðið „öll“ í henni en í það minnsta var þar fullyrðing um að þetta væri það sem þjóðin vildi. Þeirri spurningu frá mér hefur ekki verið svarað hvort einstaklingar, byggðarlög, atvinnugreinar o.s.frv. sem hafa mótmælt þessum breytingum teljist hluti þjóðarinnar. Ég hef ekki enn fengið svar við því. Í það minnsta liggur fyrir að 2/3 þátttakenda í skoðanakönnunum um gæði þeirra frumvarpa sem hv. þingmaður mælir hér fyrir eru andvígir þeim þó að það sé hárrétt hjá honum að samkvæmt könnunum er töluvert stór hluti þjóðarinnar sem vill breytingar á þessu kerfi með einhverjum hætti. Ég held þó að þær kannanir mæli miklu frekar almenn leiðindi í þjóðfélaginu á því þrasi sem stjórnmálamenn hafa boðið þjóðinni upp á á undanförnum árum og áratugum um þetta kerfi. Að minnsta kosti eru þær lausnir sem núverandi stjórnarflokkar bjóða upp á ekki þess eðlis að skoðanakannanir mæli nema innan við 30% (Forseti hringir.) stuðning við það meðal þjóðarinnar sem stuðning við þær breytingar sem hv. þingmaður talar fyrir.