139. löggjafarþing — 139. fundur,  1. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[18:29]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Forseti. Hv. þingmaður svaraði því ekki hvort hann teldi ástæðu til að grípa til einhverra ráðstafana og þá hverra, hann vill einungis að halda í það ástand sem er í dag. Í því felst í raun og veru hugmynd hans um að kalla frumvarpið til baka, ef hann telur það valda þeim skaða sem hann hélt fram áðan, að þrátt fyrir að niðurstaðan virðist samt vera sú að staðan sé mjög slæm vill hv. þingmaður halda í það horf, hann vill ekki gera neinar breytingar á því. Það er ekki nógu gott svar. Það er ekki nógu góð tillaga af hálfu hv. þingmanns að segja að við skulum halda þessu áfram eins og þetta er þegar þetta er ekki nógu gott. Með því er ég ekki að halda því beinlínis fram að þau frumvarp sem við erum að tala um hér leysi þennan vanda. Vandinn er til staðar nú þegar. Frumvörpin eru ekki orðin að lögum en vandinn er til staðar. Hvað vill þá hv. þingmaður gera til að leysa þennan vanda, ef hann vill yfirleitt nokkuð gera annað en að kalla þessi frumvörp til baka og halda að það muni leysa vandann eitt og sér?