139. löggjafarþing — 139. fundur,  2. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[00:21]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Vissulega er hægt að ná sátt. Við höfum nefnilega séð hvað eftir annað að þegar stöku stjórnarliðar hafa rætt málin sín á milli og í stjórnarandstöðu með það að markmiði að ná sátt hefur það gengið furðu vel þegar menn skoða staðreyndirnar, færa rök fyrir máli sínu og eru hugsanlega tilbúnir að gefa eitthvað eftir ef þeir sjá að aðrar betri leiðir séu færar. Sérstaklega var þetta augljóst í vinnu sáttanefndarinnar svokölluðu þar sem náðist alveg ótrúlega víðtæk sátt, ekki bara í pólitíkinni heldur líka við atvinnurekendur, launþega, nánast alla sem komu að því máli.

En því miður sannaði sú vinna að hæstv. forsætisráðherra stefnir alls ekki að sátt um þetta mál. Hæstv. forsætisráðherra (Forseti hringir.) vill viðhalda stöðugum átökum um málið og, því miður, þar með stöðugri óvissu sem gerir greininni illa kleift að takast á við (Forseti hringir.) nauðsynlega uppbyggingu.