139. löggjafarþing — 140. fundur,  3. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

827. mál
[12:09]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Kerfið er ekki gallalaust, sagði hv. þm. Ásbjörn Óttarsson, en samt hefur hann enn ekki svarað því hverjir ágallarnir eru sem menn eru tilbúnir að skoða. Ég inni þingmanninn aðeins nánar eftir því.

Síðan segir hann að það séu engar deilur um þjóðareign á auðlindinni, en engu að síður er séreignarrétturinn helsta röksemd andstæðinga frumvarpsins gegn því að hér megi nokkru breyta. Sjálfstæðismenn hafa gengið sérstaklega hart fram í því að þeir geti til dæmis ekki sætt sig við 15 ára nýtingarrétt. Hér var vitnað í niðurstöðu sáttanefndarinnar svokölluðu, þingmaðurinn fullyrti að ákveðin sóknarfæri væru í niðurstöðum þeirrar nefndar og ég velti fyrir mér hvaða sóknarfæri það væru. Hver var þá hin raunverulega niðurstaða þeirrar nefndar og hvert telur hann veganestið vera sem þar var gefið?

Það hefur nefnilega verið ágalli á þessari gagnrýni allri á frumvarpið að það koma engin svör frá gagnrýnendum um hvað þeir vilja (Forseti hringir.) þá fá í staðinn og hverju þeir eru tilbúnir að breyta.