139. löggjafarþing — 140. fundur,  3. júní 2011.

frumvörp um stjórn fiskveiða.

[13:59]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Að því er varðar það sem hv. þingmaður vísar til, að frumvarpið geti á einhvern hátt brotið gegn stjórnarskránni og að það komi fram í áliti fjárlagaskrifstofunnar, vísa ég til þess, af því að ég hef lesið álitið yfir, að það er ekki mikið rökstutt af hverju það er. Þar er að vísu vísað í skiptingu til sveitarfélaganna að því er varðar hluta af aflagjaldi sem á að ráðstafa til sveitarfélaganna. Það er mál sem ég heyri að eru skiptar skoðanir um, þ.e. hvernig skiptingin er. Þá er miðað við löndun í sveitarfélögunum. Þetta verður auðvitað skoðað í nefnd.

Ég minni líka á, þótt það sé ekki alveg sambærilegt mál, að í aflabrestinum sem varð 2007 var varið um 750 millj. kr. til sveitarfélaganna sem var skipt miðað við aflamark í þorski síðustu þrjú árin þar á undan. Ég varð ekki vör við neinar athugasemdir við það þó að skiptingin væri með þessum hætti og að ekki fengju öll sveitarfélög. Ég er ekki að segja að þetta sé alveg sambærilegt mál, en þó kom það upp í huga mér þegar ég heyrði að menn gerðu miklar athugasemdir við þetta.

Þetta þarf auðvitað að skoðast í nefndinni sem fer með málið en ég vek athygli á því að þetta er lítið rökstutt hjá fjárlagaskrifstofunni og kannski óvanalegt að fjárlagaskrifstofa geri svona athugasemdir. Þetta er lögfræðilegur þáttur í frumvarpinu en hagfræðingar unnu þetta álit fyrir fjármálaráðuneytið.

Varðandi síðara atriðið kemst ég ekki til að svara núna en skal svara því í síðara andsvari.