139. löggjafarþing — 140. fundur,  3. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

827. mál
[16:50]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég tek undir með hv. þingmanni varðandi tæknibyltingu og margt fleira í sjávarútvegi, þar hafa orðið stórstígar framfarir. En staða sjávarútvegsins og einstakra fyrirtækja er þrátt fyrir hið mikla frjálsræði og markaðshyggju ekkert sérstaklega góð. Ég tala ekki um einstakar sjávarbyggðir sem hafa verið varnarlausar gagnvart þeirri markaðshyggju sem ráðið hefur ferðinni. (Gripið fram í.) Við erum bara ósammála um þá nálgun, frú forseti.

Varðandi eignarréttarstöðu aflaheimilda og fiskveiðiauðlindarinnar var hv. þingmaður í orði sammála mér um að það skuli vera tryggt bæði í lögum og í stjórnarskrá að eignarrétturinn á auðlindinni og ráðstöfun hennar séu með óyggjandi og afdráttarlausum hætti í höndum þjóðarinnar og ríkið ráðstafar til þeirra aðila sem stunda veiðarnar. Það hefur ekki reynst vera svo. Þess vegna er með afdráttarlausum hætti tekið á þessum þætti í frumvarpinu. Ég spyr hv. þingmann: Styður hann ekki það ákveðna afdráttarlausa sjónarmið sem sett er fram um að það sé tryggt?