139. löggjafarþing — 140. fundur,  3. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

827. mál
[16:53]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég ætla að biðja hv. þm. Bjarna Benediktsson, formann Sjálfstæðisflokksins, að hjálpa mér að átta mig á því hver staðan er á þessu máli núna. Auðvitað var unnið án samráðs við nokkurn sem hefur með sjávarútveg að gera og það eru býsna margir. Beint eða óbeint starfa líklega um 30 þúsund manns að sjávarútvegi og greinum sem tengjast sjávarútvegi beint. Frumvarpið var lagt fram án þess að athuga hagræn áhrif af tillögunum. Við vissum raunar ekkert um hvenær hæstv. ráðherra mundi mæla fyrir frumvarpinu eða í hvaða farveg það færi og nú virðist mér í dag að það sé allt einhvern veginn í uppnámi enn þá. Hér eru haldnir fundir í ýmsum herbergjum í þinghúsinu til að reyna að átta sig á því hver staðan er. Getur hv. þingmaður frætt mig um það hver er staðan á málinu? Stendur Sjálfstæðisflokkurinn í vegi fyrir því að það sé sett í sáttafarveg? Er hann með kröfur sem stjórnarliðið getur ekki sætt sig við, eða hvað veldur?