139. löggjafarþing — 140. fundur,  3. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

827. mál
[18:25]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Rætt er um þau 23 ár sem lögð eru til í frumvarpinu. Ef þingmaðurinn læsi síðu 6 í flokksþingssamþykkt Framsóknarflokksins stendur þar, með leyfi forseta:

„Samningurinn verði endurskoðanlegur á fimm ára fresti með möguleika á framlengingu til fimm ára í senn.“

Þarna er verið að tala um að alltaf sé hægt að halda þessu opnu. Við framsóknarmenn fórum að mestu leyti að þeirri sátt sem kom út úr samninganefndinni margumræddu þegar komin var þjóðarsátt um sjávarútveginn. Þetta er fyrst og fremst byggt á þeirri vinnu sem við fórum svo málefnalega í gegnum á flokksþinginu.

Frú forseti. Ég segi: Það er meira en hægt er að segja um ákveðna aðila sem leggja umrætt frumvarp fram því að það frumvarp setur þá sátt í algert uppnám. Þó að ég gagnrýni ákveðna þætti í frumvarpinu þá er ég ekki ósammála því öllu eins og hv. þingmaður tekur fram. Ég bið hann um að hafa stefnuskrá Framsóknarflokksins alltaf á náttborðinu hjá sér.