139. löggjafarþing — 141. fundur,  6. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

839. mál
[14:57]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við hv. þingmaður erum örugglega sammála um að prinsippin skipta máli, og þau skipta verulegu máli þegar menn útfæra löggjöf á sviði fiskveiða og þær leikreglur sem eiga að gilda um meginatvinnuveginn okkar.

Ég tók eftir því að hv. þm. Þór Saari kom sér hjá því að nefna það hvaða einstaklinga og sérfræðinga þingflokkur Hreyfingarinnar fékk sér til aðstoðar við samningu þessa máls. Ég neita að trúa því að hv. þingmaður geti ekki nefnt þá sérfræðinga sem þingmenn Hreyfingarinnar fengu sér til ráðgjafar. Getur verið að það hafi til dæmis verið sá fulltrúi sem Hreyfingin skipaði í sáttanefndina eða voru það eftir atvikum einhverjir aðrir?

Hv. þingmaður hefur gengið mjög hart fram í því að saka aðra stjórnmálaflokka og stjórnmálamenn um að ganga erinda sérhagsmunahópa, hvort sem það er í sjávarútvegi eða annars staðar. Hann hefur haldið því hér fram í umræðum, m.a. um málefni sjávarútvegsins, að sumir hv. þingmenn sem hafa komið nálægt þeirri atvinnugrein séu þess vegna vanhæfir til að fjalla um málið. (Gripið fram í.) En hv. þingmaður hefur ekki viljað upplýsa mig um til hvaða sérfræðinga hann leitaði.

Ég spyr þá í framhaldi af því vilji hann upplýsa mig um það hvaða einstaklingar þeir eru. Getur verið að þeir hafi einhverja fjárhagslega hagsmuni af því að frumvarpið er gert úr garði með þeim hætti sem hér liggur fyrir? Hefur hv. þingmaður til dæmis metið þau áhrif sem þetta frumvarp hefur á ýmis fyrirtæki í fiskvinnslu án útgerðar, svo sem á Flateyri eða í Breiðdalsvík? Búa einhverjir slíkir hagsmunir að baki þessu frumvarpi og vildi hv. þingmaður vera svo elskulegur að upplýsa þingið um það?