139. löggjafarþing — 142. fundur,  6. júní 2011.

menntun og atvinnusköpun ungs fólks.

449. mál
[16:05]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Við ræðum enn eitt mál frá hv. menntamálanefnd, þingsályktunartillögu um menntun og atvinnusköpun ungs fólks. Menntamálanefnd sjálf flytur þessa tillögu og hún var komin til áður en aðrar nefndir voru settar á laggirnar. Hér er talað um nefndina Nám er vinnandi vegur. Þar samþykkti ríkisstjórnin, í samráði við aðila vinnumarkaðarins, að setja allt að 7 milljarða á næstu þremur árum í að efla átak sem meðal annars felur í sér að atvinnuleitendur verði hvattir til að sækja sér menntun í framhaldsskólum. Jafnframt er hér komið inn á að framhaldsskólarnir muni haustið 2011 taka inn alla umsækjendur undir 25 ára aldri.

Ég vil láta þess getið að menntamálanefnd hafði farið af stað með þessa þingsályktunartillögu áður en þetta verkefni ríkisstjórnarinnar og aðila vinnumarkaðarins kom inn. Það er þó tekið mið af því hér og er það vel.

Ég vil benda á að við settum framhaldsskólalög árið 2008. Við höfum á þessu þingi tekið þátt í því að fresta ákveðnum lögum um framhaldsskóla vegna þess að talið var að fjármunir lægju ekki fyrir. Þrátt fyrir að ég sé einn af flutningsmönnum þessarar tillögu verð ég að segja að ég er ekki sátt við þetta vinnulag, að skerða fjármuni og fjárútlát til framhaldsskólans til að sinna því lögbundna hlutverki sem honum var falið með lögum frá Alþingi 2008 en vera svo, ríkisstjórn og aðilar vinnumarkaðarins, tilbúin til að setja allt að 7 milljarða á næstu þremur árum í það ferli sem framhaldsskólinn átti raunverulega að gera, en hafði verið tekið út með frestun ákvæða. Ég vona að hv. menntamálanefnd taki það upp hjá sjálfri sér á komandi þingi að draga til baka þær frestanir sem gerðar voru á gildandi lögum.

Engu að síður er það af hinu góða að sérstakt átak sé í gangi fyrir unga einstaklinga sem eru atvinnulausir því að fátt er bölið meira en þeirra sem atvinnulausir eru. Kynnist menn því á unga aldri og séu lengi atvinnulausir er hætta á að það dragi úr kjarki, áræði og þori til að hefja leit að nýjum tækifærum. Að því leyti ber að fagna því sem hér er sett fram.

Í gildandi framhaldsskólalögum og því sem frestað var var meðal annars komið inn á starfsnámið og vinnustaðasjóð sem skólar og þá þeir vinnustaðir sem tilbúnir voru til að taka nemendur í starfsnám eða vinnustaðatengt starfsnám — til að auðvelda aðgengi nemenda að þjálfun í þeirri iðngrein eða starfsgrein sem þeir óskuðu að mennta sig í yrði settur á laggirnar sá vinnustaðanámssjóður sem hér um ræðir. Talið var að það auðveldaði nemendum að sækja í iðnnám og geta síðan tekið meira en eingöngu bóknámið og fullnumið sig í þeirri iðngrein eða starfsnámi sem nemendur óskuðu hverju sinni. Þess vegna ber að fagna því sem hér er komið hvað þetta varðar og vonandi er þetta komið til að vera. Þetta er vonandi ekki tímabundið átak til þriggja ára heldur er verið að stefna í að fullgilda framhaldslögin frá 2008. Þess vegna stendur menntamálanefnd einhuga að því. Eins og fram kom í máli hv. þm. Skúla Helgasonar, formanns menntamálanefndar, leggur nefndin áherslu á að samhliða þessu átaki, Nám er vinnandi vegur, verði með þessari aðgerðaáætlun tryggt aðgengi framhaldsskólanema, sem eru 16, 17 og 18 ára, að vinnustaðanámi og þá aðgengi í þennan vinnustaðanámssjóð þannig að þeir nemendur sem hefja nám í framhaldsskóla 16 ára gamlir og kjósa sér iðngreinar verði ekki látnir sitja á hakanum en eldri nemendum gefið tækifæri til að koma inn og fara í starfsnám eða iðnnám sækja í vinnustaðanámssjóðinn en hinir þurfa að bíða.

Ég legg mikla áherslu á að ósk nefndarinnar verði virt um aðgengi framhaldsskólanema frá 16 ára aldri að vinnustaðanámi, samkvæmt 28. gr. laga nr. 92/2008, að við séum ekki að mismuna nemendum í framhaldsskóla hvað þetta varðar á næstu þremur árum.

Virðulegur forseti. Ég ítreka það sem ég sagði í upphafi að það var hv. menntamálanefnd sem ákvað að leggja fram þingsályktunartillögu hvað þetta varðar og því ber að fagna að framkvæmdarvaldið í samvinnu við aðila vinnumarkaðarins hafi síðan lagt af stað með átakið Nám er vinnandi vegur til að efla áræði, kjark og þor ungra atvinnulausra einstaklinga til að sækja inn í skóla á nýjan leik til að styrkja sig og vonandi búa sig enn frekar undir framsækið nám til framtíðar.