139. löggjafarþing — 142. fundur,  6. júní 2011.

rannsóknarnefndir.

348. mál
[19:43]
Horfa

Frsm. allshn. (Róbert Marshall) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að það sé mjög góð ábending hjá hv. þingmanni að þetta leggi þær skyldur á herðar þeim sem flytur þingsályktunartillögu um einhvers konar rannsókn að einhvers konar mat fari fram á því hvaða kostnaður sé samfara því.

Ég vil líka nota tækifærið til að fara yfir þær rannsóknarbeiðnir sem nú þegar liggja fyrir vegna þess að hv. þingmaður spurði um það í fyrra andsvari sínu og ég náði ekki að svara því. Við afgreiddum fyrir áramót tillögu um rannsókn á Íbúðalánasjóði, auðvitað í tengslum við afgreiðslu fjárlaga á þeim tímapunkti og skipti mjög miklu máli. Við höfum undirbúið þingsályktunartillögu upp úr frumvarpi hv. þm. Eyglóar Harðardóttur um rannsókn á aðdraganda og orsökum á falli sparisjóðanna. Hún kemur væntanlega og vonandi til afgreiðslu á vordögum og við getum þá vænst þess að sú rannsókn geti farið af stað á sumarmánuðum. Fleiri rannsóknarbeiðnir liggja fyrir, t.d. rannsókn á einkavæðingu bankanna og eflaust fleiri sem eru komnar fram og þarfnast afgreiðslu.

Ég held að það sé mjög hollt fyrir stjórnsýsluna, stjórnmálaflokkana og ríkisstjórnarflokka, að þessar heimildir séu til staðar og að þingið rækti jöfnum höndum eftirlitshlutverk sitt með þeim hætti sem hér er kveðið á um. Í því felst gríðarlega mikið aðhald í sjálfu sér að framkvæmdarvaldinu sé það ljóst að á hverjum tíma sé verið að rannsaka eitthvað sem varðar hag almennings.