139. löggjafarþing — 142. fundur,  6. júní 2011.

rannsóknarnefndir.

348. mál
[19:45]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég skrifa undir þetta nefndarálit með fyrirvara eins og kom fram í máli hv. þm. Róberts Marshalls, sem talaði hér á undan mér. Það er mjög óheppilegt að eftir það stóra bankahrun sem við þurftum að ganga í gegnum fyrir nokkrum missirum skulum við þurfa að standa í þeim sporum að setja núna lög um rannsóknarnefndir. Það ákvæði hafði verið í stjórnarskránni frá gildistöku hennar, í 39. gr., að setja rammalöggjöf um rannsóknarnefndir en því miður hafði það aldrei orðið að veruleika eða því verið fylgt eftir þrátt fyrir að löggjöf á Norðurlöndunum hefði uppfyllt þetta skilyrði. Þess vegna litast svona lagasetning ósjálfrátt af þeim málum sem eru undanfari þess að látið er til skarar skríða með frumvarpssmíðina.

Farið var af stað að beiðni forsætisnefndar Alþingis við að semja frumvarp um rannsóknarnefndir sem er hér til umfjöllunar. Fín vinna hefur verið í allsherjarnefnd í þessu og þingmenn mjög samstiga. En ekki er hægt að líta fram hjá því að frumvarpið hefur tekið miklum breytingum og í upphaflegu drögunum kom fram mjög mikil gagnrýni á þann þátt sem snýr að 4. gr. er varðar verkefni rannsóknarnefnda. Ég ætla ekki að dvelja lengi við það ákvæði en til dæmis var sett fram sú gagnrýni að þegar Alþingi hafi skipað rannsóknarnefnd til að fjalla um bankahrunið hafi ekki verið leitað til þeirra aðila sem höfðu þó reynslu af því að fara með málefni rannsóknarnefnda, í svo veigamiklu verki eins og þá lá fyrir.

Hér eru lagðar til breytingartillögur við 4. gr. varðandi mat á ábyrgð og valdsviði og hvernig þessar rannsóknarnefndir eiga að vísa málum til annarra — ég er þá sérstaklega að vísa í saksóknaraákvæðið. Ég hef lagt á það ríka áherslu í þeirri vinnu sem frumvarpið byggir á að þessu ákvæði sé breytt í algjörum undantekningartilfellum að því leyti að aðrir möguleikar séu útilokaðir. Það á ekki að vera hlutverk Alþingis að fara af stað með rannsóknir þegar við höfum önnur tæki til þess sem hafa dugað okkur vel hingað til. Er ég þá að vísa í saksóknara, ég er að vísa í ríkisendurskoðanda, ég er að tala um umboðsmann Alþingis, sem hefur eftirlitshlutverk með þinginu, og annað.

Það er mjög hryggilegt að í skugga þessarar lagasetningar liggja fyrir þinginu einar tíu rannsóknarbeiðnir, rannsóknartillögur. Þetta er eitthvað sem þingmenn verða að vara sig á að nota ekki mjög víðtækt því að það er jú alltaf hægt að rannsaka allt sem hönd er á festandi. Ég er ekki heldur að gagnrýna það en það verður að beita þessu ákvæði mjög varlega. Sérstaklega er ég þá að vísa í það að þessu sé ekki beitt til þess að reyna að koma sök á fyrrverandi ríkisstjórnir því að við höfum þessi úrræði sem eru hér til staðar sem ég fór yfir, eftirlitsskyldu þingsins.

Ég styð frumvarpið að því leyti að það var löngu orðið tímabært að setja rammalöggjöf um rannsóknarnefndir. Í framsöguræðu formanns allsherjarnefndar var farið yfir það ákvæði að líka sé hægt að byggja rannsóknir á 39. gr. stjórnarskrárinnar og þá eru þingmannanefndirnar þarna undir en þingmenn geta líka beðið aðra aðila sem ekki sitja sem þingmenn að fara með rannsókn fyrir sig eins og gert var hjá rannsóknarnefnd Alþingis.

Frú forseti. Um þetta er svo sem ekki meira að segja. Ég ítreka það aftur að þegar verið er að setja lög af þessu tagi skuli þeim beitt af varúð og þá fyrst og fremst faglega og tíminn leiðir í ljós hvernig fer með afdrif þeirra tíu rannsóknarbeiðna og tillagna sem liggja fyrir þinginu. Eins og ágætur gestur, sem kom fyrir nefndina, sagði þá tekur fleiri ár að leysa úr þeim rannsóknum fari þær allar af stað, en formaðurinn kynnti hér að fara ætti fram rannsókn á falli sparisjóðanna. Það er líka mjög mikill áhugi úti í samfélaginu á því að lögð verði fram tillaga um rannsókn á lífeyrissjóðunum og þannig mætti lengi telja. En ég minni á að saksóknari sjálfur hefur forræði í ýmsum málum er varða refsivert athæfi og nú er gruggið að setjast eftir bankahrunið og verið að rannsaka fall bankanna. Við skulum sjá til hvernig þessum lögum, verði frumvarpið samþykkt, verður beitt í framtíðinni. En ég vonast til þess að það verði gert af varúð og varfærni.