139. löggjafarþing — 143. fundur,  7. júní 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[17:08]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta efh.- og skattn. (Lilja Mósesdóttir) (U) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta mun að sjálfsögðu breyta skuldastöðu ríkissjóðs þar sem tillagan gengur út á það að ríki og Seðlabanki gefi þetta skuldabréf út, ekki nema þá að því verði komið fyrir í einhvers konar eignarhaldsfélagi fyrir utan ríkisreikning, við höfum séð dæmi þess.

Annað sem ég vil taka upp hérna er fullyrðing á bls. 2 um það að höftin valdi hærri fjármagnskostnaði. Þetta er rangt og styðst ekki við þær rannsóknir sem gerðar hafa verið á löndum með fjármagnshöft. Þar hefur einmitt komið í ljós að höft tryggja gengisstöðugleika og þar með minni verðbólgu og vaxtastigið verður þá lægra, ekki síst vegna þess að enginn þrýstingur er á Seðlabankann að halda uppi vöxtum til að tryggja gengisstöðugleika.

Ég vil því spyrja hv. þingmann hvaðan þessi fullyrðing sé komin eða við hvað hafi verið stuðst þegar þessi fullyrðing var sett inn í nefndarálitið.