139. löggjafarþing — 143. fundur,  7. júní 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[17:17]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta efh.- og skattn. (Tryggvi Þór Herbertsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég skal ekki segja um það og sem betur fer hefur ekki reynt á þessa tryggingu en þetta er hárrétt athugað hjá þingmanninum að þegar við tölum um aflandskrónur, sumir tala um jöklabréf og krónueign erlendra aðila, erum við að blanda saman mörgum hópum. Við erum að blanda saman Íslendingum sem eiga í gegnum fjárvörslu í erlendum bönkum krónur á Íslandi þannig að þetta eru ekki allt útlendingar.

Það sem ég vildi sagt hafa var að þessir 465 milljarðar eru ekki allt saman það sem við köllum „hræddar“ krónur. Talið er að hræddar krónur geti numið innan við 100 milljörðum og ég held að gjaldeyrisvarasjóðurinn geti vel ráðið við að taka högg upp á 100 milljarða. Það sem ég hef reyndar meiri áhyggjur af er að hinn venjulegi Íslendingur vilji fara með sparnað sinn úr landi og að gjaldeyrisvarasjóðurinn þoli það ekki (Forseti hringir.) vegna þess að tiltrú á íslenskt efnahagslíf vanti.