139. löggjafarþing — 143. fundur,  7. júní 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[18:57]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta efh.- og skattn. (Birkir Jón Jónsson) (F) (andsvar):

Frú forseti. Þetta er ansi athyglisverð nálgun hjá hv. þingmanni, nýr vinkill á málinu, vegna þess að ef hv. þingmaður hefur rétt fyrir sér koma stjórnvöld ekki hreint fram í þessu máli. Hv. stjórnarliðar hafa sagt að það sé lagastoð fyrir þeim reglum sem Seðlabankinn styðst við dagsdaglega. Það væri þá ekki fyrsta málið þar sem við rækjum okkur á það í stjórnarandstöðunni að okkur er ekki sagður allur sannleikurinn, en það er annað mál. En ég á von á því að ef hv. þingmaður hefur eitthvað til síns máls verði að kalla málið inn aftur milli 2. og 3. umr. og fara ítarlegar yfir þann þátt þess vegna þess að við erum að tala um undirstöðugerð hagkerfisins, hvernig við ætlum að byggja þetta land upp. Við getum ekki gengið frá lagasetningu um svo mikilvægt mál með þeim hætti sem hér um ræðir.