139. löggjafarþing — 143. fundur,  7. júní 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[19:02]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta efh.- og skattn. (Birkir Jón Jónsson) (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta síðasta andsvar. Eins og hv. þingmanni er von og vísa talar hann oft og tíðum í lausnum. Ég held að hv. þingmaður hafi akkúrat komið fram með lausn á því vandamáli sem blasir við okkur, sem er ekkert annað en úrlausnarefni, og að sjálfsögðu eigum við að taka þetta mál til okkar á vettvangi þingsins. Efnahags- og skattanefnd á að taka þetta mál yfir, kalla til sín færustu sérfræðinga á sviði efnahagsmála í samfélaginu. Þeir eru ekki allir í Seðlabankanum. Það eru margar aðrar hugmyndir í gangi um hvernig við getum aflétt þessum gjaldeyrishöftum. Ég tek því undir með hv. þingmanni. Ég tel, og sérstaklega í anda rannsóknarskýrslunnar, að við eigum að fara að temja okkur önnur vinnubrögð og að vinna málið með þeim hætti að Alþingi taki sjálft meira frumkvæði í málum er snerta mikilvægustu hagsmuni þjóðarinnar og ef þetta mál varðar ekki mikilvægustu hagsmuni þjóðarinnar til framtíðar litið þá er ekkert mál sem varðar framtíðarhagsmuni þjóðarinnar. Þetta er svo stórt mál.