139. löggjafarþing — 143. fundur,  7. júní 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[20:31]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég tel rétt að rifja aðeins upp í hvaða stöðu við Íslendingar erum áður en lengra verður haldið. Þannig vill til að það liggur inni umsókn Íslendinga um að fá að komast í Evrópusambandið. Grunnstoðir Evrópusambandsins eru að það skuli vera eitt markaðssvæði og má enginn víkja sér undan þeim skyldum sem sambandið býður upp á. Við erum að hálfu leyti í þessu sambandi að því leyti að við erum aðilar að EES-samningnum en eins og flestir vita eru það þessi þrjú EFTA-ríki og öll ESB-ríkin, 27 talsins, sem eru aðilar að EES-samningnum. Það vilja nefnilega margir gleyma því að þegar talað er um EES-samninginn er talið að það eigi bara við um Ísland, Noreg og Liechtenstein, en 27 ríki Evrópusambandsins tilheyra EES-samningnum þannig að ef eitt þessara 30 ríkja brýtur á einhvern hátt gegn EES-samningnum getur það þýtt dómsmál.

Þar sem Samfylkingin fór aðallega fyrir því að umsóknin yrði lögð inn, að vísu með hjálp Vinstri grænna sem hafði það á kosningastefnuskrá sinni og lofaði því fyrir kosningar að á engan hátt yrði stuðlað að umsókn að Evrópusambandinu, erum við í mjög einkennilegri stöðu í dag með þetta frumvarp. Hér er lagt til að gjaldeyrishöftin sem voru sett á í neyð að hausti 2008 og áttu einungis að gilda í skamman tíma, meðan það versta gekk yfir í íslensku efnahagslífi, verði framlengd. Það gerir þessi vinstri stjórn sem hefur það á stefnuskrá sinni að fara með þjóðina í Evrópusambandið og nú er komin framlenging á höftunum. Áður hafði Seðlabankinn þau á sínum snærum en nú er lagt til að þau verði lögfest.

Frú forseti. Mig langar svolítið til að rifja upp fjórfrelsið svokallaða sem við erum aðilar að í gegnum EES-samninginn. Samningurinn hefur það markmið að stuðla að „stöðugri og jafnri eflingu viðskipta- og efnahagstengsla samningsaðila við sömu samkeppnisskilyrði og eftir sömu reglum með það fyrir augum að mynda einsleitt Evrópskt efnahagssvæði“. Í reynd þýðir þetta að vettvangur atvinnustarfseminnar er ekki lengur bundinn við staðbundna heimamarkaði heldur er allur EES-markaðurinn undir og þar eiga allir að sitja við sama borð hvað leikreglur snertir.

Þarna erum við að tala um samleitni 30 landa sem standa að samningnum. Sá hluti samningsins sem snýr að okkur hér á landi og EES-samningurinn gengur út á er fjórfrelsið. Fjórfrelsi er hugtak sem vísar til frelsis til flutninga fólks í fyrsta lagi, varnings í öðru lagi, þjónustu í þriðja lagi og fjármagns í fjórða lagi innan Evrópska efnahagssvæðisins, það sem við köllum innimarkað Evrópusambandsins. Það er ekki nóg með að hér sé verið að brjóta á EES-samningnum varðandi frjálst flæði fjármagns, heldur tel ég að verið sé að brjóta á hinum þremur stoðunum líka.

Með fjórfrelsinu er til dæmis gefið það frelsi að framleiðsluþættir eiga að geta ferðast tiltölulega hindrunarlaust innan svæðisins og samkvæmt kenningunni um hlutfallslega yfirburði mundi slík opin samkeppni leiða til aukinnar stærðarhagkvæmni, sérhæfingar og hagnýtingar. Með frumvarpinu er verið að gera þessi markmið að engu.

Það er vísað í EES-samninginn hvað varðar frjálst flæði fjármagns í afar vönduðu og góðu nefndaráliti frá 3. minni hluta efnahags- og skattanefndar sem hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins, Pétur H. Blöndal og Tryggvi Þór Herbertsson, lögðu fram um þetta mál. Þar er fjallað um þetta brot á EES-samningnum, en eins og ég sagði áðan er líka verið að brjóta á frelsi flutninga fólks á milli landamæra með þessu frumvarpi því að frelsi fólks til að ferðast á milli landa eru settar það miklar skorður með þessum gjaldeyrishöftum að það er tæpast hægt að segja að fólk hafi ferðafrelsi. Því er skammtaður gjaldeyrir. Nú hefur verið færð fram breytingartillaga er snýr að því að fólk þurfi ekki þegar það kemur heim að skila til bankastofnana gjaldeyrinum sem það eyðir ekki úti, en þarna er samt klárlega verið að brjóta á ferðafrelsi einstaklinga.

Ég tel einnig verið að brjóta á því fjórfrelsi sem snýr að varningi. Varningur getur ekki komið óhindrað til landsins. Við höfum sterkan útflutning sem enn er ekki lokað á, þó ekki væri því að það er okkar eina gjaldeyrisvon. Það er verið að skammta inn gjaldeyri og það er ekki sama hvernig á það er litið því að Seðlabankinn hefur tögl og hagldir í því hverjir fá að eiga gjaldeyrisviðskipti. Maður hefur heyrt ýmsar sögur af því að erfiðleikum getur verið bundið að fá gjaldeyri fyrir þeim varningi sem er verið að flytja inn. Það segir okkur líka að þessar verklagsreglur eiga á engan hátt að vera svona matskenndar, eins og þær eru, að Seðlabankinn hafi sem stjórnvald þetta ákvörðunarvald.

Það er klárlega verið að brjóta á fjórfrelsinu sem snýr að þjónustu. Þjónusta er eitthvað óefnislegt sem á að flytjast yfir landamæri. Farsímanotkun er eitt dæmi, þetta getur líka verið barnagæsla á milli landa og öll þessi óefnislega þjónusta. Það sjá allir að á meðan svona gjaldeyrishöft eru viðhöfð nýtur þessi þáttur EES-samningsins ekki fulls frelsis. Svo er aðalatriðið í þessu stóra brotið á EES-samningnum. Það er verið að brjóta heiftarlega á flæði fjármagns á milli landa.

Þegar þetta allt er dregið saman með þessum hætti er afar einkennilegt að hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra skuli fara fram með þetta frumvarp. Eins og landsmenn hafa orðið vitni að er Evrópusambandið nánast trúboð í augum Samfylkingarinnar og þarna er beinlínis farið á móti EES-reglum og hreinlega jafnvel gerð tilraun til að láta segja samningnum upp. Algjörlega í undantekningartilvikum má fara gegn þessu fjórfrelsi sem er ágætlega reifað á bls. 4 í nefndaráliti 3. minni hluta efnahags- og skattanefndar, og raunverulega bara í neyðartilvikum. Hér er engin neyð lengur og það er verið að leggja til að þessi gjaldeyrishöft standi samtals í sjö ár. Fyrr má nú vera, frú forseti, hvað liggur að baki?

Okkur andstæðingum Icesave-samninganna þriggja sem reynt var að koma yfir á herðar skattgreiðenda var hótað því margoft í umræðunni að ef við mundum ekki samþykkja Icesave mundi það eitt brjóta EES-samninginn. Það var notað sem málsvörn hjá ríkisstjórninni. Síðar kom í ljós að svo var að sjálfsögðu ekki því að ekkert í Icesave-samningnum leiddi til þess að fjórfrelsið væri brotið, en það er klárlega gert í þessu því að hér er verið að kippa stoðunum undan því að fjármagn geti flætt á milli landa.

Það er nokkuð merkilegt að lesa frumvarpið. Það er mikil greinargerð með því í athugasemdunum. Ég átti þess kost að sitja í fjárlaganefnd í morgun þar sem meðal annars fulltrúar Seðlabankans mættu. Nú hefur komið í ljós að Seðlabankinn vanmat skuldir ríkisins heiftarlega upp á 500–600 milljarða. Það er varla hægt að týna svo stórum upphæðum en það gerðist þarna á milli atriða í Icesave-deilunni. Einhverjir töluðu um að það hefði verið gert til að fegra stöðuna til að hægt væri að vísa í það að þjóðarbúið skuldaði ekki eins mikið og raun ber vitni. Það bárust engin svör. Ég spurði hversu mikið yrði eftir af gjaldeyrisvaraforðanum þegar stóru gjalddagarnir árið 2011 yrðu yfirstaðnir. Aðstoðarseðlabankastjóri gat ekki svarað því en nú hef ég fundið svarið á bls. 41.

Þegar rýnt er í þessar tölur og samlesið við þetta frumvarp sem leggur á þessi gjaldeyrishöft til 2015 dettur manni það helst í hug að það sé eingöngu verið að leggja þessi gjaldeyrishöft á vegna þess að það er ekki til gjaldeyrir í landinu. Ríkissjóður hefur ekki getað fjármagnað sig. Hér er verið að tala um að gjaldeyrisforði Seðlabankans sé í sögulegu hámarki nú, að hann sé um 47% af landsframleiðslu, en það gleymist að hann er allur fenginn að láni.

Frú forseti. Á árinu 2011 eiga Íslendingar að borga í fyrsta sinn fyrir bankana þann gjaldeyrisvaraforða sem var fenginn að láni 2006 til að styrkja bankana þegar þeir töldu sig vera að þenjast svo mikið út að íslenska ríkið þyrfti að vera þrautalánavarasjóður. Þá tók Seðlabankinn lán.

Í öðru lagi kemur það fram í frumvarpinu að þeir sem eiga þessar aflandskrónur geta allt eins verið Íslendingar og sé það raunin er íslenska þjóðin að borga fyrir bankamennina í annað sinn.

Í þriðja lagi kemur íslenska þjóðin til með að borga þessi lán sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur komið með og nágrannaþjóðirnar og Pólland og þessar þjóðir sem lánuðu okkur fyrir gjaldeyrisvaraforðanum. Reikningurinn fellur enn á ný á skattgreiðendur. Þetta er mjög alvarleg staða en það er stefna Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og greinilega vinstri velferðarstjórnarinnar að það sé best að láta skattpínda Íslendinga sitja uppi með reikninginn af þessu bankaævintýri öllu.

Þegar ríkissjóður hefur greitt lánin sem eru á gjalddaga 2011 verður ekki mikið eftir af gjaldeyrisvaraforðanum. Það er talað um að ríkissjóður geti staðið í skilum allt til ársins 2015. Fjármögnun er í algjörri óvissu og raunverulega engin ráð til nema að nú á að gefa út á ný ríkisskuldabréf sem eykur jafnvel kannski enn þann vanda sem við fáumst nú við, að hér sé ekki hægt að aflétta gjaldeyrishöftum vegna þess að það er svo mikið af aflandskrónum í landinu.

Rök Seðlabankans í morgun voru þau að ríkið þyrfti að fara af stað með fjármögnun svo bankarnir gætu tekið lán, það mundi veita bönkunum sem starfa í landinu aukið traust á alþjóðavettvangi ef ríkissjóður hefði lánstraust. Ég segi enn og aftur, frú forseti: Hverjir eiga raunverulega þessa íslensku banka? Hverjir eru þessir eigendur og hvers vegna er íslenska ríkið að þjónkast við þessa eigendur sem eru raunverulega ekki til á pappírum, sem eru andlitslausir?

Ég hef lagt spurningu eftir spurningu fyrir hæstv. fjármálaráðherra og það er aldrei nein svör að hafa. Nú er efnahagsreikningur bankanna að þenjast svo mjög út að hann er orðinn 1/5 af því sem hann var fyrir hrun. Það eru engin lítil hættuljós á lofti þar, sér í lagi ef íslenskir skattgreiðendur eiga svo að taka skellinn aftur ef bankarnir falla. Það stendur í frumvarpinu á bls. 43 að þessar krónueignir erlendra aðila, þessar svokölluðu aflandskrónur, séu 185 milljarðar sem eru innstæður í fjármálastofnunum og skiptast á milli Landsbanka, Íslandsbanka og Arion banka. Þetta kemur til af því að hér voru sett sérstök gjaldeyrishöft af þeirri ástæðu að það var tekin ákvörðun um að tryggja allar innstæður upp í topp í hruninu. Þeirri skoðun hefur ekki verið breytt, þó minni ég á að ég efast um að það standist gagnvart dómstólum því að þetta er bara skuldbindandi loforð sem ríkisstjórn tekur sem vinstri stjórnin hélt svo áfram með. Það hefur hins vegar hvergi verið leitt í lög að það sé ríkisábyrgð á öllum innstæðutryggingum. Það er alvarlegur hlutur ef þessir sömu eigendur koma bakdyramegin inn því að um eignarhaldið á þessum aflandskrónum sem liggja inni í bönkunum stendur, með leyfi forseta:

„Aflandskrónur eru að miklu leyti í eigu erlendra aðila og bundnar í innstæðum og ríkisverðbréfum. Áætlað er að þær nemi um 465 milljörðum kr. Til samanburðar má nefna að þessi upphæð er jafnhá og fjárlög íslenska ríkisins fyrir árið 2011 og samsvarar rúmum fjórðungi áætlaðrar landsframleiðslu þessa árs.“

Svo sést þegar frumvarpið er samlesið áfram á bls. 43:

„Rétt er þó að hafa í huga að á bak við hluta innstæðna erlendra banka og krónuskuldabréfa í vörslu erlendra aðila kunna að standa innlendir endafjárfestar eða aflandsfélög í þeirra eigu.“

Þarna er beinlínis gefið í skyn að það séu ekki endilega einhverjir erlendir aðilar sem eiga þessar kröfur þegar kíkt er á bak við tjöldin. Svo stendur í fótnótu á bls. 43 og ég verð að koma fram með þessi rök, með leyfi forseta:

„Umfang aflandskróna í umferð er í þessari skýrslu nálgað með gögnum um krónueignir erlendra aðila. Upplýsingar um aðsetur endafjárfestis eru af skornum skammti, þrátt fyrir að almennt sé álitið að flestir þeirra séu erlendir aðilar.“

Þarna er gefið í skyn að reikna megi með því að þetta séu erlendir aðilar.

Frú forseti. Er það ekki ábyrgðarhlutur hjá ríkisstjórn Íslands og ekki síst Seðlabanka Íslands að hafa ekki grandskoðað það hverjir þessir eigendur eru? Seðlabankinn hefur öll tól og tæki til þess að gá að því hvernig þetta eignarhald er byggt upp. Eins og kemur fram eru einungis 60 milljarða innstæður í Seðlabanka Íslands en eins og ég sagði áðan eru tæplega 200 milljarða innstæður í föllnu bönkunum. Það kemur fram í frumvarpinu að lendi þessi mál í uppnámi og ekki sé hægt að standa skil á þeim falla jafnvel bankarnir aftur vegna þess að efnahagsreikningur nýju bankanna er meðal annars byggður á þessum innstæðum.

Merkilegasti hluturinn er þó sá að af þessum 465 milljörðum sem eru taldir vera aflandskrónur eru 220 milljarðar í löngum ríkisbréfum og í ríkisvíxlum sem bréf Íbúðalánasjóðs eru uppistaðan í. Því liggur ekkert á að setja þessi gjaldeyrishöft, um 220 milljarðar mundu aldrei fara úr landi öðruvísi en á þann hátt að hugsanlega lífeyrissjóðir mundu kaupa ef einhverjir vildu selja löng ríkisbréf eða kaupa bréf Íbúðalánasjóðs. Hvað eiga erlendir aðilar svo sem með það að eiga íbúðarhúsnæði á Íslandi?

Svona er staðan, frú forseti, og mig grunar að það sé verið að setja þessi lög hér og nú vegna þess að það er einfaldlega ekki til gjaldeyrir til að bæta þessu ofan á fyrir þetta streymi sem hugsanlega gæti farið hér út. Hv. þm. Lilja Mósesdóttir hefur lagt til skattlagningu á þessar útgreiðslur. Framsóknarmenn töluðu mjög fyrir uppboðsleið sem var að vísu reynd í dag hjá Seðlabankanum. Seðlabankastjóri er hoppandi glaður með hversu vel tókst. Það var útboð á 15 milljörðum og það kom tilboð upp á rúma 60 milljarða á gengi sem Seðlabankinn getur sætt sig við. Það gekk allt saman mjög vel þannig að það er athyglisvert að sjá að það var ekki meira fjármagn sem vildi skreppa úr landi en þessir rúmu 60 milljarðar. Þrýstingurinn er kannski ekki svo ýkja mikill.

Hér er líka kallað eftir nýju erlendu fjármagni og hér er sífellt talað um að atvinnulífið þurfi þessa innspýtingu. Ég spyr mig því: Hvers vegna má erlenda fjármagnið ekki vera gamalt? Hvers vegna geta þessir andlitslausu aðilar sem eiga þessar aflandskrónur ekki komið með okkur Íslendingum inn í okkar atvinnulíf og farið að byggja hér upp? Þeir tóku áhættu því að þeir voru fyrst og fremst með áhættufjárfestingu hér fyrir hrunið. Þess vegna eru þeir lokaðir hér inni með þetta fjármagn. Að taka áhættu er það sama og að tapa, eftir því sem áhættan er meiri og vaxtaprósentan hærri, vænt hagnaðarvon, er áhættan meiri. Ég hef svo sem aldrei fengið svör við þeirri spurningu hvers vegna það ætti að þurfa að vera nýtt og ferskt erlent fé sem þyrfti að koma inn í stað þess að hafa það gamalt og þegar í landinu. Þessu verður líklega verður ekki svarað í þessari ræðu.

Nú er tími minn alveg að verða búinn, hann líður hratt. Svona hefur Samfylkingin hagað sér. Hér er lagt til að lögbinda gjaldeyrishöft í heil sjö ár. Þetta er ekki í anda þess frelsis sem Samfylkingin hefur talað fyrir síðan sá flokkur var stofnaður og það er einkennilegt að Samfylkingin sjálf, drottning ESB á Íslandi, skuli fara svo skefjalaust á móti EES-samningnum. Kannski er ætlunin að reyna að láta segja honum upp en svo vitum við náttúrlega líka að hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra hefur talað íslensku krónuna mjög niður. Það hneyksli þekkist ekki á byggðu bóli. Þeir samfylkingarmenn sem hafa tjáð sig um það vilja að sjálfsögðu taka upp evru og þetta er kannski einn þáttur í því.