139. löggjafarþing — 143. fundur,  7. júní 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[21:13]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta efh.- og skattn. (Birkir Jón Jónsson) (F) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég er hingað kominn til að gera þá athugasemd við fundarstjórn forseta, að því leyti til að við erum að ræða grundvallarmál, að sá ráðherra sem ber ábyrgð á málinu, hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra, hefur ekki setið í salnum síðustu klukkustundirnar í þessari umræðu og ekki heldur hæstv. forsætisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra, sem eru leiðtogar í ríkisstjórninni. Þeir hafa ekki verið viðstaddir þessa umræðu sem er grundvallarumræða um það hvort við ætlum að viðhalda gjaldeyrishöftum hér á landi næstu árin eða ekki.

Nú spyr ég frú forseta hvort hún vilji vera svo væn að hafa samband við hæstv. ráðherra og gera þeim grein fyrir því að þeir stjórnarandstæðingar sem eru í salnum — því enginn stjórnarliði er hér — óski eftir því að þeir sem bera ábyrgð á þessu máli, forustumenn ríkisstjórnarflokkanna, komi hingað og verði viðstaddir þessa umræðu.