139. löggjafarþing — 143. fundur,  7. júní 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[21:41]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka svarið. Að sjálfsögðu eru Maastricht-skilyrðin heilbrigðisvottorð hvers ríkis enda ættu Íslendingar að kappkosta að ná þeim sem fyrst því að þá fyrst hefðum við tök á efnahagsmálum okkar og gætum haldið áfram með góðu krónuna okkar. Það hafa sérfræðingar sagt fyrir löngu. En það er langt í land og langt í markmiðin því að efnahagsstjórn ríkisstjórnarinnar bendir ekki beinlínis til að þessi skilyrði náist.

Ég staldra enn við ártalið 2015. Þjóðin á að greiða þjóðaratkvæði um hvort ganga eigi í hið gamla Evrópusamband en það hefst nýtt tímabil í skeiði Evrópusambandsins eftir 2014 þegar búið verður að breyta Lissabon-sáttmálanum og Þýskalands-væða Evrópusambandið, eins og fram hefur komið. Telur þingmaðurinn að hugsanlegt sé að við breytingarnar á Lissabon-sáttmálanum verði gefinn afsláttur af Maastricht-skilyrðunum, sem Evrópusambandið hefur ekki gefið hingað til vegna þess að það hefur litið svo á að allar þjóðir þurfi (Forseti hringir.) að uppfylla skilyrðin, í ljósi þess að við getum sagt að Evrópa logi í ljósum logum (Forseti hringir.) vegna efnahagsástands en ekki stríðs? Getur verið að einhver endurskoðun sé þar á ferð?