139. löggjafarþing — 143. fundur,  7. júní 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[23:11]
Horfa

Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni fyrir þessa næmu lýsingu á gjaldþrotaleið ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum. Það hefði verið gagn að því fyrir virðulega ráðherra í ríkisstjórninni sem og raunar þá stjórnarþingmenn sem styðja þessa stefnu að hlýða á þær umræður sem hér hafa verið. (Gripið fram í.) Ég sé raunar formann efnahags- og skattanefndar sitja hér við umræðuna en það er furðulegt að ráðherrar í ríkisstjórninni og (Gripið fram í.) fleiri stjórnarþingmenn skuli ekki taka þátt í þessari umræðu, eða vilja þeir ekkert kannast við það frumvarp sem um er að tefla? (Gripið fram í.) Vilja þeir bara láta eins og það hafi ekki verið lagt fram og ekkert þurfi að ræða það?

Mig langar að spyrja hv. þm. Sigmund Davíð Gunnlaugsson út í þá háskalegu stefnu sem við erum að ræða og felst í því að festa þessi höft endanlega í sessi. Ég þarf ekki einu sinni að rifja það upp hvílík átök það voru haustið 2008 þegar þessi höft voru lögð á. Ekki óraði mann fyrir því að maður ætti vorið 2011 eftir að ræða það hér hvort festa ætti þau enn frekar í sessi og það gagnvart almennum borgurum í landinu, að það væri stefnan.

Mig langar að spyrja hv. þm. Sigmund Davíð Gunnlaugsson hvort hann telji aðra leið færa en þá sem hæstv. ríkisstjórn býður upp á. Hvort heldur hv. þingmaður að sé betra að fara þá leið að taka plásturinn bara hratt af, eins og maður gerir gagnvart börnum, eða svona ofurhægt eins og virðist vera leið ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur þegar kemur að höftunum? Sér hv. þingmaður aðra leið en þá gjaldþrota- og haftaleið sem núverandi ríkisstjórn býður upp á?