139. löggjafarþing — 144. fundur,  8. júní 2011.

endurskoðun aflareglu við fiskveiðar.

758. mál
[14:12]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg):

Frú forseti. Það gætti ákveðins misskilnings hjá sumum hv. þingmönnum, ekki hjá hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni, um ákvörðun á heildaraflamarki sem ráðherra tekur sem er annars vegar á grundvelli ráðgjafar Hafrannsóknastofnunar og hins vegar að fengnu áliti hinna ýmsu aðila og viðræðum við þá sem tengjast greininni beint. Sú ákvörðun er tekin að fengnum þeim viðræðum.

Hitt er að aflaregla gildir fyrir þorsk. Hún var, eins og hv. þingmaður og fyrrverandi sjávarútvegsráðherra gat réttilega um, lengi í mótun og lengi í vinnslu og hefur verið stuðst við hana undanfarin ár þó að hún hafi svo formlega verið samþykkt í ríkisstjórn líklega 2008 og að henni yrði fylgt til fimm ára. (Gripið fram í: Það var 2009.) Já, 2008 og 2009.

Varðandi aflareglu í öðrum fisktegundum er Hafrannsóknastofnun að vinna að nauðsynlegri gagnaöflun og mati á því hvernig það mætti gerast og er í sjálfu sér tilbúin í þá umræðu. Ég tel að áður en það skref verður stigið þurfi að fara í nánari umræðu um það og upplýsingagjöf um það og taka pólitíska umræðu um málið áður en sú ákvörðun er tekin. Ég tel brýnt að hún fari fram sem allra fyrst og vil gjarnan hafa samráð við hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd í þeim efnum því að þetta er gríðarlega mikið atriði.

Varðandi einstök atriði í skýrslunni þá hef ég ekki tíma til að koma inn á það, þar er málið fyrst og fremst reifað á vísindalegum grunni og forsendum og þar er einmitt minnst á þetta sem hér var komið inn á að (Forseti hringir.) þá aflareglu sem núna er stuðst við skorti sveigjanleika til að takast á við hin ýmsu atriði.

Varðandi fyrirspurn hv. þingmanns um skýrsluna skal tekið fram að það stendur til að hún verði sett á netið alveg á næstunni og hún komi þar. Það er ekkert að fela í þessari skýrslu og hún er mjög góð. (Gripið fram í.)