139. löggjafarþing — 144. fundur,  8. júní 2011.

rekstrarstaða sauðfjárræktenda og mjólkurframleiðenda.

515. mál
[14:25]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Í svörum hæstv. ráðherra kom fram að ráðherra sjávarútvegs- og landbúnaðarmála og fjármálaráðherra skrifuðu undir yfirlýsingu í sambandi við framlengingu búvörusamninganna, en bændur komu fyrstir allra og voru tilbúnir að taka á sig ákveðna skerðingu gegn því að fá framlengingu, um að farið yrði í að skoða og bregðast við erfiðri skuldastöðu og rekstrarstöðu sauðfjárbænda og kúabænda. Ég tel það mjög ámælisvert að ekkert hafi verið unnið í þessu síðan.

Það hefur ítrekað komið fram í störfum ríkisstjórnarinnar, eins og hv. þm. Einar K. Guðfinnsson kom inn á varðandi lífeyrissjóðinn, að sí og æ er höggvið í sama knérunn. Það er verið að lækka þær greiðslur sem ríkið hefur staðið fyrir til Bændasamtakanna og ýmissa þátta í félagskerfi bænda og ekkert hefur komið í staðinn. Ríkisstjórnin hefur ekki einu sinni staðið við það sem hún hefur skrifað undir. Það gengur ekki, frú forseti.