139. löggjafarþing — 144. fundur,  8. júní 2011.

endurútreikningur gengistryggðra lána.

750. mál
[15:01]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Í máli hv. þingmanns kom fram sú afstaða hans að í afborgunum sem greiddar hafa verið af lánum í fyrri tíð fælist fullnaðarkvittun af viðkomandi afborgunum. Sú afstaða á sér auðvitað rök en við þann endurútreikning sem hér er spurt um erum við bundin af lögum 151/2010 og túlkun þeirra laga í dómum Hæstaréttar frá 16. júní og 16. september 2010 þar sem notuð er önnur aðferð. Hæstiréttur notar aðra aðferð en hv. þingmaður telur rétt að gera. Ég hef samúð með þeim sjónarmiðum sem hv. þingmaður setur fram en það tjóar ekki að deila við dómstóla.

Í lögum 151/2010 er að finna reiknireglu um hvað skuli gera til að færa öllum lántökum gengistryggðra lána ávinning til samræmis við niðurstöðu Hæstaréttar í þessum tilteknu málum. Með löggjöfinni lækkaði skuldastaða heimilanna um 50 milljarða kr. og hefur leitt til þess að það hefur þurft að endurútreikna um 80 þús. lánasamninga. Með lögunum var umboðsmanni skuldara falið eftirlit með framkvæmd endurútreikninga. Umboðsmaður skuldara hefur meðal annars fengið Raunvísindastofnun Háskóla Íslands til að fara yfir útreikninginn. Í athugun umboðsmanns skuldara hefur komið í ljós að ekkert misræmi er í útreikningi á íbúðalánum hjá fjármálafyrirtækjum miðað við það sem mælt er fyrir um í lögunum, en hvað bílalán varðar sé munur á útreikningi sem liggi í því að flest fjármálafyrirtæki leggi ógreidda vexti við höfuðstól skuldarinnar með árs millibili og reikni síðan vexti af nýjum höfuðstól þannig reiknuðum, en þrjú fyrirtækjanna leggi vexti við höfuðstól bílalána við hvern áfallinn gjalddaga og því reikni þau nokkurs konar mánaðarlega vaxtavexti. Áfallnir vextir geta verið hærri með síðarnefndu aðferðinni.

Ekki skeikar miklu í þorra uppgjöra, en umboðsmaður skuldara metur það svo að munurinn geti verið um 3–5% af upphaflegum höfuðstól. Ekki verður betur séð en að hvor aðferðafræðin um sig geti rúmast innan ákvæða laga nr. 151/2010, enda fólu þau ekki í sér að felld væru úr gildi önnur samningsákvæði en þau sem tengjast gengistryggingu með beinum hætti, þ.e. önnur ákvæði samninga milli aðila halda gildi sínu, svo sem um það hvernig reikna skuli vaxtavexti.

Samningsákvæðin að öðru leyti leyfa það og er það ekki skilningur okkar að lögin nr. 151/2010 breyti slíkum samningsákvæðum. Það eru því samningsákvæði í hverju tilviki sem ráða því hvort leggja megi vaxtavexti við hvern áfallinn gjalddaga. Það er ljóst að fyrirtækjum er heimilt að endurreikna lánin á þann veg að komi skuldurum betur og ég hef ítrekað hvatt til þess að það sé gert.

Það er sérstakt ánægjuefni að ekki virðast dæmi um að endurreiknað hafi verið í ósamræmi við ákvæði laganna. Það er mikilvægt að það liggi fyrir og því ljóst að sá orðasveimur sem gekk hér lengi um mikið misræmi á milli útreikninganna og laganna virðist ekki eiga við rök að styðjast. (Gripið fram í.)

Hv. þingmaður spyr hvers vegna ekki hafi verið kveðið nánar á um framsetningu útreiknings á uppgjöri vegna ólögmætra vaxta og/eða verðtryggingar í reglugerð eins og heimilað hafi verið í lögum 151/2010. Reglugerð var sett á grundvelli laganna sem fól umboðsmanni skuldara eftirlit með útreikningunum, en ekki var talin þörf á að kveða nánar á um framsetningu útreiknings í reglugerð. Eins og fram hefur komið hefur þessi útreikningur gengið almennt býsna vel og skuldarar fengið lán sín endurútreiknuð í samræmi við lögin. Ég er ekki enn farinn að sjá einhver vandamál í þessu efni sem hefði verið hægt að leysa með forskrift af hálfu ráðuneytisins í reglugerð.

Miðað við niðurstöður rannsóknar umboðsmanns skuldara verður að telja að ekki sé þörf á frekari aðkomu stjórnvalda að endurútreikningi lána að svo stöddu. Það er ekkert sem bendir til að frekari atbeina hins opinbera þurfi til. Í lokin er þó vert að þakka starfsfólki fjármálafyrirtækja fyrir vel unnin störf að þessu leyti. Mikið hefur mætt á fjármálafyrirtækjunum við að endurreikna mikinn fjölda lána á stuttum tíma og jafnframt embætti umboðsmanns skuldara sem er búið að fara mjög vandlega yfir þetta með aðstoð Raunvísindastofnunar Háskóla Íslands.