139. löggjafarþing — 145. fundur,  8. júní 2011.

almennar stjórnmálaumræður.

[20:58]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Góðir Íslendingar. Umræðan sem nú fer fram fer fram í skugga glataðra tækifæra, mótmæla, skýrslu um endurreisn bankanna, atvinnuleysis og stefnuleysis og stjórnleysis. Ríkisstjórninni hefur mistekist að skapa trúverðugleika á íslenskum efnahagsmálum, hvort sem er innan lands eða utan. Hótanir um ríkisvæðingu fyrirtækja í orkuframleiðslu eða sjávarútvegi rýra trúverðugleika Íslands.

Umræða um lögfestingu gjaldeyrishafta er nýhafin hér á Íslandi, lögfestingu til fimm ára. Það mun hafa alvarlegar afleiðingar fyrir Ísland, efnahaginn, heimilin og fyrirtækin. Án atvinnu verður enginn hagvöxtur til í landinu og sá litli hagvöxtur sem nú mælist er fyrst og fremst kominn til vegna sjávarútvegsins og því er sorglegt að stjórnvöld skuli gera allt hvað þau geta til að skapa óvissu um atvinnuöryggi þeirra sem starfa í sjávarútvegi.

Framtíðarskipulagi sjávarútvegsins verður ekki breytt með einhliða ákvörðun ríkjandi stjórnvalda. Til að sem mest sátt ríki um breytingar og framtíðarskipulag þarf sáttaferli og nú treysti ég á stjórnvöld, svei mér þá, í því að breyta um takt, breyta um vinnubrögð og setja þessa vinnu í sáttaferli.

Umhverfi annarra greina er lítið skárra, vegna skattpíningaráráttu ríkisstjórnarinnar dregur úr þeim þrótt. Við hljótum að spyrja hvers vegna íslensk fyrirtæki eflast ekki meira en raun ber vitni. Svör liggja í skattstefnu ríkisstjórnarinnar og æðisgengnu kapphlaupi erlendra kröfuhafa um að ná sem fyrst til sín þeim fjármunum sem þeir eiga á hættu að tapa vegna áhættulána sinna.

Við höfum séð það á undanförnum tveimur árum að þessi stefna ríkisstjórnarinnar skilar engum árangri. Lausnin liggur þvert á móti í því að skapa jákvæða hvata og auka trú og traust fyrirtækja á því umhverfi sem þeim er skapað. Það hefur ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur mistekist.

Frú forseti. Fyrir nokkru var hér umræða um skýrslu fjármálaráðherra um endurreisn bankanna. Skýrslan opinberaði ýmislegt um vinnubrögð ríkisstjórnarinnar. Í skýrslunni kemur fram að ríkisstjórnin tók meðvitaða ákvörðun um að breyta frá fyrri stefnu um að heimilin skyldu njóta afskriftanna á lánasöfnum bankanna og ákvað þess í stað að kröfuhafarnir skyldu njóta þeirra. Samið var við kröfuhafana, flokksgæðinga Samfylkingarinnar, á þeim nótum að þeir geta mergsogið heimili og fyrirtæki til að hámarka hagnað sinn. (Gripið fram í.) Sú aðgerð ríkisstjórnarinnar að fórna hagsmunum heimila fyrir hagsmuni kröfuhafa rís nú sem skammarlegt minnismerki um öll innantómu loforðin um að slá skjaldborg um heimilin.

Ríkisstjórnin hefur svikið þau loforð blygðunarlaust og slegið skjaldborgina um kröfuhafa bankanna í staðinn. Samt dirfist hæstv. fjármálaráðherra að halda því fram á flokksráðsfundi Vinstri grænna að venjulegt fólk hafi ekki orðið fyrir eignabruna. Hverjir eru þessir venjulegu, frú forseti, hvaða hópur er það? Ég get upplýst hæstv. fjármálaráðherra um að venjulegir Íslendingar eru margir með íslensk verðtryggð lán sem hafa hækkað upp úr öllu valdi vegna verðbólgu á sama tíma og fasteignaverð lækkaði. Venjulegt fólk hefur á síðustu tveimur árum horft á ævisparnað sinn hverfa í hærri afborganir af lánum, hærra verð á nauðsynjavörum og endalausar skattahækkanir hæstvirts fjármálaráðherra.

Frú forseti. Venjulegt fólk þarf á hverjum degi að sækja sér aðstoð og matargjafir hjá hjálparsamtökum. Er til of mikils mælst að fjármálaráðherra taki nú lyftuna niður úr fílabeinsturninum og stígi inn í íslenskan raunveruleika?

Við höfum séð margar tillögur og framsóknarmenn hafa lagt fram margar tillögur á þingi um lausn á vanda heimila og fyrirtækja, en á þær hafa stjórnarflokkarnir ekki hlustað.

Frú forseti. Icesave þekkja flestir og þá sorgarsögu alla. Íslenska þjóðin hafnaði því að taka á sig skuldir einkaaðila þrátt fyrir að ríkisstjórnin og fjölmargir aðrir fylgjendur aðildarumsóknar að Evrópusambandinu beittu sér af mikilli hörku fyrir því að svo yrði. Því var hótað að lánstraust mundi hrynja og skuldatryggingarálag hækka ef þjóðin hafnaði Icesave. Því var haldið fram að erlend fjárfesting mundi stöðvast. Allt hefur þetta reynst rangt.

Lánsmatið hefur þvert á móti batnað, skuldatryggingarálagið hefur ekki verið lægra síðan fyrir hrun og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn staðfesti í vikunni að engar líkur væru á að Icesave hefði áhrif á erlenda fjárfestingu. Það eru aðrir hlutir sem trufla það, þ.e. ríkisstjórnin.

Hvað gekk því fólki til sem hótaði þessum hörmungum að ástæðulausu? Var það vegna Evrópusambandsumsóknarinnar? Og hvenær munu viðkomandi axla ábyrgð á þeim mistökum sem gerð voru í Icesave-málinu og þeim rangfærslum sem beitt var vísvitandi til að villa um fyrir þjóðinni?

Evrópusambandsumsóknin er rekin áfram af mikilli hörku og stjórnarþingmenn, núverandi og fyrrverandi, hafa sagt að komið sé út fyrir það umboð sem Alþingi veitti. Sé það rétt er ábyrgð ríkisstjórnarinnar mikil, og okkar hinna líka fyrir að veita ekki meira aðhald. Þessu þurfum við að breyta. Við sem höfum það á stefnuskrá okkar að Íslandi sé best borgið utan þessa sambands þurfum að taka höndum saman því að aðlögunin er á fullu.

Frú forseti. Í ár er minnst 200 ára afmælis Jóns Sigurðssonar, helstu sjálfstæðishetju Íslandssögunnar, hetju sem barðist fyrir því að Íslendingar losnuðu undan yfirþjóðlegu valdi. Á sama tíma og þessara tímamóta er minnst er unnið markvisst að því að koma Íslandi aftur undir yfirþjóðlegt vald. Var barátta Jóns Sigurðssonar til einskis?

Góðir tilheyrendur. Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur er komin á endastöð þó að kjörtímabilið sé aðeins hálfnað. Tækifærin fyrir heimilin og fyrirtækin til að rétta úr kútnum hverfa eitt af öðru. Innan skamms verður því miður erfitt að snúa dæminu við og afleiðingar kreppunnar verða þá langvinnar. Þetta eru varnaðarorð sem ég bið ykkur að muna. Færa má rök fyrir því að frjálshyggjan hafi verið orðin of ráðandi í íslensku samfélagi en það er engin lausn að hverfa frá einum öfgum til annarra því að það stjórnarfar hafta og ríkisvæðingar sem ríkisstjórnarflokkarnir predika er síst minni öfgar en þær sem ollu hruninu.

Góðir tilheyrendur. Það verður að fara meðalveginn með skynsemi og rökhyggju að leiðarljósi, vega og meta lausnir út frá virði þeirra en ekki frá hverjum þær koma. Aðeins þannig getum við unnið okkur út úr núverandi vanda og náð að nýta þau fjölmörgu tækifæri sem blasa við okkur. — Góðar stundir.