139. löggjafarþing — 147. fundur,  9. júní 2011.

losun gróðurhúsalofttegunda.

710. mál
[15:55]
Horfa

Frsm. minni hluta umhvn. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir framsögu hans. Ég mundi nú halda að ég væri nær hugsunum sjálfstæðismanna varðandi markaðsvætt hagkerfi en fulltrúar Vinstri grænna í umhverfisnefnd, en það er á ákveðnum forsendum sem ég er á móti þessu frumvarpi, ég fór yfir það í ræðu minni áðan. Það er nefnilega svolítið skrýtið að hafa Vinstri græna í ríkisstjórn og að verða vitni að því að markaðsmál umhverfisins eru orðin rétthærri umhverfinu sjálfu, það eru þau með þessu frumvarpi. En svona geta hlutirnir breyst við það eitt að skipta um stóla í þinghúsinu.

Mig langar til að spyrja þingmanninn vegna þess að hann er landsbyggðarmaður og þarf að nota flugið mikið: Finnst hv. þingmanni mikið réttlæti í því að þurfa að borga a.m.k. 6–30 evrur á hvert flugsæti þegar hann þarf að fara til útlanda? Það mun gerast þegar þetta frumvarp er orðið að lögum og flugið fellur undir það. Sá kostnaður sem hlýst af þessum losunarkvótum er settur beint á herðar almenningi vegna undanþáguákvæðis þess sem finnst í viðauka III þar sem ríkisstjórnir og þjóðhöfðingjar, elítan, eru undanþegin þessu gjaldi.

Í öðru lagi: Finnst hv. þingmanni ekki ósanngjarnt gagnvart stóriðju á Íslandi og í Evrópusambandinu að það skuli vera lagðir á hana slíkir skattar — við skulum bara kalla þetta skatta? Er hv. þingmaður ekki hræddur um að það verði hreinlega stóriðjuleki frá Íslandi og út úr löndum Evrópusambandsins vegna þessa gjalds sem enginn getur séð fyrir hvað mun hækka mikið í nánustu framtíð?