139. löggjafarþing — 147. fundur,  9. júní 2011.

losun gróðurhúsalofttegunda.

710. mál
[17:08]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er bara afskaplega hræddur við kostnaðinn í þessu máli og öllu sem því viðkemur. Mér finnst hreindýraleiðsögumálið svo gott dæmi vegna þess að það er tiltölulega lítið og einfalt og sýnir hvernig hægt er að sprengja upp kostnaðinn. Námskeið fyrir hreindýraleiðsögumenn hafa ekki verið haldin í 10 ár. Um 170 manns sækja um og 30 fá að fara á námskeið. Af hverju 30? Af hverju ekki 40, 50 eða 60? Nei, nei, það eru 30. Fasti kostnaðurinn er sami hvort sem það eru 30, 40, 50 eða 60. Umhverfisstofnun ákveður að það séu 30 sem fá að fara á námskeið. Hvar halda þeir það? Á Egilsstöðum. Frábær staður, sjálfsagt að halda námskeið fyrir fólkið sem býr þar en það er ekki boðið upp á annað, í það minnsta ekki enn. Allir eða langflestir sem þurfa að kenna á þessu námskeiði þurfa að fljúga þangað, gista þar. Námskeiðið verður haldið nú um hvítasunnuhelgina og ferðakostnaðurinn er 2 milljónir kr. þannig að kostnaðurinn er hífður upp í 160 þúsund.

Nú segir Umhverfisstofnun: Við ætlum líka að halda námskeið annars staðar. En þeir geta ekki lækkað gjaldið vegna jafnræðissjónarmiða þannig að 160 þúsundkallinn er kominn til að vera. Af hverju? Til hvers? Maður getur alveg haldið jafngott námskeið og skipulagt það með þeim hætti að maður geti fjölgað þeim, haft þau víðar um landið og lækkað gjaldið. Þegar maður sér svona tölur, 50 milljónir á ári, þrjú og hálft stöðugildi, og sér að svona er unnið í máli sem allir geta skilið og er svo einfalt, renna á mann tvær grímur því að það er tilhneiging hjá hinu opinbera að stækka hlutina (Forseti hringir.) út í hið óendanlega. (Forseti hringir.) Það virðist ekki vera neinn áhugi hjá þessari ríkisstjórn að halda neitt aftur af því.