139. löggjafarþing — 147. fundur,  9. júní 2011.

nálgunarbann og brottvísun af heimili.

706. mál
[21:20]
Horfa

Frsm. allshn. (Róbert Marshall) (Sf):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti frá allsherjarnefnd um frumvarp til laga um nálgunarbann og brottvísun af heimili.

Með frumvarpi þessu er lagt til að sett verði ný lög á grundvelli gildandi laga um nálgunarbann og mælt fyrir um það nýmæli að heimilt verði að vísa manni brott af heimili sínu eða dvalarstað ef rökstudd ástæða er til að ætla að hann hafi framið refsivert brot eða raskað á annan hátt friði brotaþola eða hætta er á að slíkt muni gerast. Einnig mælir frumvarp þetta fyrir um að heimilt verði að beita nálgunarbanni samhliða brottvísun af heimili. Lagt er til að ákvörðun um nálgunarbann eða brottvísun verði í höndum lögreglustjóra en samkvæmt gildandi lögum tekur héraðsdómari ákvörðun um nálgunarbannið.

Markmið þessa frumvarps er að styrkja réttarstöðu brotaþola enn frekar og þá sérstaklega þeirra sem mega þola heimilisofbeldi eða ofsóknir. Þá er það sjónarmið lagt til grundvallar í frumvarpinu að ekki er litið á heimilisofbeldi sem einkamál heldur mál sem varðar samfélagið í heild og nauðsynlegt er að bregðast við því sem slíku.

Hér er á ferðinni allítarlegt og efnismikið nefndarálit sem ég ætla ekki kannski að fara yfir í smáatriðum í framsögu minni. Ég ætla eingöngu geta þess að þetta mál, hin svokallaða austurríska leið, hefur verið til umfjöllunar og er talið mikilvægt í því skyni að bæta réttarstöðu þeirrar grafalvarlegu tegundar ofbeldis sem á sér því miður stað inni á heimilum fólks þar sem allir ættu að njóta friðhelgi og skjóls.

Sérstaklega er fjallað um réttindi barna í þessu nefndaráliti. Í 17. gr. frumvarpsins er kveðið á um að ef barn býr á heimili þar sem brottvísun manns á sér stað skuli lögreglan ávallt tilkynna brottvísunina til barnaverndarnefndar og hið sama gildi ef um nálgunarbann er að ræða. Frumvarp til breytinga á barnaverndarlögum bíður nú 3. umr. á Alþingi en í því er kveðið á um að flytjist barnafjölskylda milli sveitarfélaga eftir að mál sem hana varðar hefur komið til kasta barnaverndarnefndar flytjist þær upplýsingar til barnaverndarnefndar í því sveitarfélagi sem viðkomandi fjölskylda flytur til.

Að fjarlægja ofbeldismann af heimili er gríðarlega mikið inngrip í líf einstaklinga og í frumvarpinu er kveðið á um að gæta skuli meðalhófs við beitingu ákvæða þess og þeim skuli aðeins beitt þegar ekki þykir sennilegt að friðhelgi brotaþola verði vernduð með öðrum og vægari hætti.

Við í allsherjarnefnd tökum fram að ríkari ástæður þurfa að vera fyrir hendi til að unnt sé að brottvísa heimilismanni heldur en að kveða á um nálgunarbann. Brottvísun getur samkvæmt frumvarpinu varað í allt að fjórar vikur en nálgunarbann í allt að eitt ár og er ekki unnt að framlengja tímann nema til komi endurskoðun og gilda þá sömu málsmeðferðarreglur og við fyrri ákvörðun. Nefndin bendir einnig á að brottvísun af heimili er vægara úrræði en handtaka en unnt er að beita brottvísun af heimili í kjölfar handtöku.

Við fjölluðum talsvert í allsherjarnefnd um viðurlög við brotum gegn nálgunarbanni eða brottvísun af heimili en skv. 20. gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir að þau brot geti varðað sektum eða fangelsi allt að einu ári og sé brot ítrekað og stórfellt geti refsing orðið fangelsi allt að tveimur árum. Það er gríðarlega mikilvægt ákvæði sem styrkir þá breytingu sem hér er verið að gera til mikilla muna.

Fyrir nefndinni komu fram ábendingar frá Persónuvernd um að upplýsingar um hvort einstaklingur hafi gerst sekur um refsivert brot séu viðkvæmar persónuupplýsingar og að nauðsynlegt sé að þær séu meðhöndlaðar þannig af yfirvöldum.

Gerðar eru smávægilegar lagfæringar á orðalagi m.a. til samræmis við orðanotkun í lögum um meðferð sakamála og aðrar sem þarfnast ekki skýringa í sjálfu sér.

Við í allsherjarnefnd leggjum til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem lagðar eru til í sérstöku þingskjali.

Hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir og Þór Saari voru fjarverandi við afgreiðslu þessa máls.

Undir nefndarálitið rita auk undirritaðs hv. þm. Álfheiður Ingadóttir, Birgir Ármannsson, Vigdís Hauksdóttir, Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, Sigurður Kári Kristjánsson og Mörður Árnason.

Ég vil geta þess að mjög góð samstaða náðist um málið í allsherjarnefnd og þakka nefndarmönnum fyrir það.

Ég vil líka geta þess í framsögu minni um þetta gríðarlega mikla mál sem tekur á ofbeldi sem á sér því miður stað inni á heimilum fólks að nauðsynlegt er að menn skoði þessi mál í víðara samhengi og í samhengi við þær aðstæður og þær ástæður sem oftast eru á þeim heimilum þar sem nauðsynlegt er að grípa til jafnafdrifaríkra aðgerða og mælt er fyrir um í frumvarpinu. Þetta eru í mjög mörgum tilfellum brot sem tengjast með einum eða öðrum hætti vímuefnanotkun og verða að skoðast í því samhengi.

Í allsherjarnefnd erum við t.d. með til umfjöllunar frumvarp um skýrara bann við áfengisauglýsingum. Auðvitað tengjast þessi mál með einhverjum hætti þannig að menn verða að horfa til þess að þau ofbeldisverk sem hér er reynt að taka á eru birtingarmynd af öðrum og stærri vanda sem við sem samfélag þurfum að horfast í augu við, þ.e. vímuefnaneyslu, og við henni þarf að vera hægt að sporna með viðunandi hætti í samfélaginu. Það er gríðarlegur kostnaður sem til fellur vegna hennar, við höfum séð umfjöllun um hana og afleiðingar hennar í fjölmiðlum upp á síðkastið. Ég vil aðeins tæpa á því í þessu samhengi vegna þess að þessi mál eru skyld og menn þurfa að vera tilbúnir til að ræða þau og horfa á þau í því samhengi.

Sem fyrr segir leggur allsherjarnefnd til að þetta mál verði samþykkt. Það felur í sér miklar réttarbætur fyrir brotaþola og horfir til mikilla framfara að mínu mati.