139. löggjafarþing — 147. fundur,  9. júní 2011.

nálgunarbann og brottvísun af heimili.

706. mál
[21:28]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég kem fyrst og fremst upp til að hæla hv. formanni og þingmanni Róbert Marshall fyrir að hafa klárað þetta mál með greinilega dyggum stuðningi nefndarmanna enda hafa sjálfstæðismenn í nefndinni stutt við málið og afgreiðslu þess. Ég held að ef við lítum á söguna um nálgunarbann og ofbeldi inni á heimilum sé þetta eðlilegt næsta skref sem við erum að stíga og að mínu mati hárrétt skref. Við þurftum að fara þessa leið. Ég fagna því afgreiðslu hæstv. allsherjarnefndar á málinu.

Eftir hafa lesið nefndarálitið og frumvarpið er alveg skýrt að menn eru mjög meðvitaðir um það meðalhóf sem þarf að ríkja í beitingu ákvæða frumvarpsins og ekki síst að menn hafi í huga friðhelgi einkalífsins í 71. gr. stjórnarskrárinnar og mér fannst gott að hv. þingmaður kom inn á það í ræðu sinni.

En undan því verður ekki vikist að á málinu þarf að taka. Við höfum í raun undirbyggt þetta ár frá ári, stigið hófsöm skref, en á þessum tímapunkti er þetta rétta skrefið og rétta leiðin. Það er rétt að draga fram það sem Samtök um kvennaathvarf hafa bent á að á síðasta ári leituðu 375 konur í Kvennaathvarfið vegna ofbeldis í nánum samböndum, þar af 118 konur til dvalar ásamt 54 börnum vegna þess að dvöl á heimili þeirra var óbærileg vegna ofbeldis. Ljóst er að ef frumvarpið hefði verið orðið að lögum hefði hluti þessara kvenna og barna losnað við að hrekjast að heiman. Ég fagna þessu því sérstaklega. Þetta er gott.

Á hinn bóginn hnaut ég hins vegar um það sem hv. þingmaður gat um í lokin um áfengisauglýsingar og frumvarp sem þeim tengist og nefndin hefur væntanlega afgreitt. Ég held ekki að það sé þess eðlis að það muni koma í veg fyrir áfengisneyslu, miklu frekar eigum við að fara þá leið sem hefur verið farin í tóbaksvörnum. Þar höfum við séð (Forseti hringir.) mælanlegan árangur og forvarnir, ekki síst í grunnskólum, eru að skila því að tóbaksneysla innan grunnskólanna hefur snarminnkað, hún er mun minni núna (Forseti hringir.) en hún var fyrir nokkrum árum.